Kalt og rigning

Veðurspár gera ráð fyrir rólegu veðri fram eftir vikunni en hitatölurnar ekkert til að hrópa húrra fyrir í ágústmánuði og enginn landshluti sleppur við vætu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

„Ný vika hefst með sunnangolu og rigningu sunnan- og vestanlands. Hangir þurr á Norðaustur- og Austurlandi framan af degi, en búast má við stöku skúrum á þeim slóðum síðdegis og þar verður jafnframt hlýjast í dag, eða 16-17 stig að hámarki. 

Á morgun er útlit fyrir hæga breytilega átt. Loftið yfir landinu er óstöðugt sem þýðir að búast má við skúrum og geta sums staðar orðið góðar dembur síðdegis. Hámarkshiti dagsins fer niður á við og verður um 14-15 stig og er enginn landshluti líklegri en annar til að eiga hæsta hitann.

Á miðvikudag og fimmtudag er helst að sjá norðlæga átt í kortunum, þótt vindur verði áfram hægur. Búast má við þungbúnu veðri með vætu um landið norðanvert. Sunnanmegin á landinu gæti sést aðeins til sólar milli skýja, en skúrir eru þó líklegar á þeim slóðum, einkum síðdegis,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð sunnan 3-8 m/s og rigningu, en skýjað á Norðaustur- og Austurlandi og stöku skúrir þar síðdegis. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast NA-til.

Hæg breytileg átt á morgun. Skýjað með köflum og skúrir, einkum síðdegis, en rigning fram eftir degi SA-lands. Hiti 8 til 14 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Hæg suðlæg og síðar breytileg átt. Rigning fram eftir degi SA-lands, annars skýjað með köflum og skúrir, einkum síðdegis. Hiti 8 til 14 stig. 

Á miðvikudag:
Hæg breytileg átt og víða skúrir, hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8. Dálítil rigning eða súld um landið N-vert, en skýjað með köflum syðra og skúrir síðdegis. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast syðst á landinu. 

Á föstudag:
Norðanátt og rigning með köflum, en þurrt SV- og V-lands. Hiti 6 til 14 stig, mildast suðvestan til á landinu. 

Á laugardag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt, skýjað að mestu, en þurrt að kalla. Fer að rigna á Suður- og Vesturlandi um kvöldið. Hiti 8 til 13 stig. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir austanátt með rigningu, en úrkomulítið um landið norðanvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert