Það er eitthvað í gangi með hvalina

Attachment: "Grindhvalir við Rif" nr. 10828

„Við erum eitt stórt spurningarmerki, fræðimenn á þessu sviði, hérna heima alla vega, um hvað er í gangi. Það er eitthvað í gangi,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur og aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Í sumar hafa bæði grindhvalir og andarnefjur verið tíðir gestir, á stöðum þar sem þessar hvalategundir sjást sjaldan. Í síðustu viku óð grindhvalavaða inn í Kolgrafafjörð tvo daga í röð og í fyrradag var grindhvalavaða innan hafnargarðsins við Rif á Snæfellsnesi. Hana má sjá í myndskeiðinu hér að ofan, sem Alfons Finnsson fréttaritari mbl.is tók.

Þá strönduðu andarnefjur í Engey í Kollafirði á fimmtudag og andarnefjur hafa einnig látið sjá sig oftsinnis í Eyjafirði  og sömuleiðis glatt íbúa á Borgarfirði eystra í sumar, sem heimamönnum sem blaðamaður ræddi við síðustu helgina í júlí þótti í meira lagi óvenjulegt.

Edda Elísabet segir að það séu nokkrir hlutir sem hún og fleiri sérfræðingar segi að gætu mögulega útskýrt þetta háttalag hvalanna í sumar. Í fyrsta lagi eru það fæðutengdir þættir og er það líklegasta orsökin að mati Eddu. Hugsanlega, en ólíklega, eru hvalirnir að elta makríl upp að landi. Það gæti tengst vandræðum hvalanna með að finna „eðlilega fæðu“, segir Edda.

Önnur andarnefjan sem strandaði í Engey komst á flot er …
Önnur andarnefjan sem strandaði í Engey komst á flot er flæddi að á fimmtudagskvöld. mbl.is/Eggert

„Við vitum, eins og með andarnefjuna sem dó í Engey, að það var talið að hún hefði verið að elta makríl. Við krufðum hana og fundum bara smokkfiskleifar, en það var orðið mjög langt síðan hún hafði borðað, hún var greinilega farin að svelta aðeins,“ segir Edda, en hún segir ólíklegt að andarnefjur séu í makrílnum. Grindhvalirnir gætu þó verið að elta makríl upp að landi.

Hugsanlega að forðast hávaða

Þá gæti hegðun hvalanna einnig mögulega verið útskýrð með því að þeir séu að bregðast við einhverjum þáttum í umhverfi sínu, eins og hávaðasömum hljóðgjöfum af einhverju tagi. Í þessu samhengi nefnir Edda heræfingar, olíuleit og annað sem skapað getur hljóð í hafinu sem berast langar vegalengdir og geta valdið hvölunum óþægindum.

„Mig grunar að þetta sé eitthvað fæðutengt, en svona atburðir eiga sér líka stundum stað þegar það hafa verið einhverjir hávaðasamir hljóðgjafar úti á sjó, sem hvalirnir hræðast eða verða fyrir óþægindum af,“ segir Edda. Hún segir hvalina forðast óþægindin og ef hljóðgjafinn sé nálægt, til dæmis ef það eru kafbátar á ferð, sem gefa frá sér mjög sterka sónar-hljóðpúlsa, láti hvalirnir sig hverfa.

Grindhvalavaða nærri landi við Rif í fyrradag.
Grindhvalavaða nærri landi við Rif í fyrradag. mbl.is/Alfons Finnsson

„Þessir hljóðpúlsar eru mjög hávaðasamir og ef þeir eru mjög nálægt forða hvalirnir sér og geta jafnvel fengið innvortis meiðsli í innra eyra. Svo gætu það líka verið einhvers konar sprengingar eða annað sem þeir eru að forðast, þar sem hljóð berst svo gríðarlega vel í hafinu og verður hávaðasamara og getur valdið hvölunum verulegum óþægindum,“ segir Edda og bætir við að meiðsl á innra eyra vegna hávaða geti líka valdið því að hvalir tapi áttum.

Þörungaeitranir ósennilegar

Edda segir tíðar komur þessara djúpsjávarhvala inn á grynningar líklega útskýrast af svipuðum ástæðum. „Það er þá eitthvað stórtækt, líklegast fæðan. Ekki bara einstaka veikindi í einstaka hópum, en ef þetta eru særð dýr eða veik dýr að einhverju leyti, þá getur verið að það sé eitthvað stórt að valda þessu, eins og til dæmis hljóðgjafi.

Svo ef ég held áfram að flækja málið þá eru líka dæmi um að það hafi orðið þörungaeitranir eða eitthvað svoleiðis, en það er ósennilegt. Ef um þörungaeitrun væri að ræða værum við sennilega að sjá fleiri hópa vera að stranda og fleiri að drepast. Þetta virðist frekar vera að þeir séu að forðast eitthvað eða séu í angist eða neyð að fara út af sínum eðlilegu svæðum og auðveldlega að tapa áttum inn á grynningar,“ segir Edda, sem segist vita að fólk vilji bara fá að vita hvað er í gangi með þessa hvali, en að það sé því miður mjög erfitt að segja til um það. 

Andarnefja stekkur upp úr Pollinum við Akureyri í sumar.
Andarnefja stekkur upp úr Pollinum við Akureyri í sumar. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Auðvitað vekur þetta upp spurningar um þessar öru breytingar sem eiga sér stað núna í hafinu og þá vakna upp spurningar hjá manni. Eru þeir í vandræðum með að finna sína eðlilegu fæðu? Þetta eru svona spurningar sem vakna, en ég get ekki gefið svar um það eins og er.

Þegar þetta gerist trekk í trekk þá finnst manni það vera augljósast að þarna sé einhver fæðuöflunarvandi, sérstaklega eftir að hafa opnað andarnefjuna [úr Engey] og sjá að hún virtist ekki hafa étið lengi, í marga daga. Mér finnst það sennilegast, en ég get ekki fullyrt það,“ segir Edda.

Andarnefjan sem drapst í Engey á fimmtudag. Edda krufði dýrið …
Andarnefjan sem drapst í Engey á fimmtudag. Edda krufði dýrið og sá að það hafði ekki borðað í marga daga. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert