Bjóða dómsmálaráðherra 1.000 evrur fyrir afsögn

Ungir jafnaðarmenn segja að ráðherra eigi ekki að nýta sér …
Ungir jafnaðarmenn segja að ráðherra eigi ekki að nýta sér viðkvæma stöðu fólks og bjóða þeim peninga gegn því að fólkið afsali sér mannréttindum sínum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ungir jafnaðarmenn bjóða Sigríði Á. Andersen 1.000 evrur fyrir að segja af sér sem dómsmálaráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu í kjölfar þess að kynnt hafa verið drög að því að umsækjendum um alþjóðlega vernd verði veittir styrkur ef þeir draga um­sókn­ir sín­ar til baka eða þeim er synjað.

„Í ljósi nýrrar tilkynningar Sigríðar Á. Andersen um nýja reglugerð sem heimilar stjórnvöldum að greiða hælisleitendum fyrir að fara úr landi hafa Ungir jafnaðarmenn ályktað um afsögn hennar. Íslendingar veita nú þegar ekki nógu mörgu flóttafólki hæli og er þetta forkastanleg leið til að firra stjórnvöldum mannúðlegri ábyrgð,“ segir meðal annars í tilkynningu Ungra jafnaðarmanna.

Þar segir enn fremur að ráðherra eigi ekki að nýta sér viðkvæma stöðu fólks og bjóða þeim peninga gegn því að fólkið afsali sér mannréttindum sínum. 

„Því vilja Ungir jafnaðarmenn bjóða Sigríði 1.000 evrur, sömu upphæð og hælisleitendum, fyrir að segja af sér embætti dómsmálaráðherra.

Ályktun Ungra jafnaðarmanna í heild sinni:

„Ungir jafnaðarmenn bjóðast til að greiða Sigríði Á. Andersen 1.000 evrur fyrir að fara úr embætti dómsmálaráðherra.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur kynnt drög að reglugerð sem heimilar Útlendingastofnun að borga hælisleitendum fyrir að draga hælisumsókn sína til baka. Upphæðin getur numið allt að 1.000 evrum, sem jafngildir 125 þúsund krónum.

Framkoma ráðherrans gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur einkennst af harðneskju og nú leggur hún fram siðferðilega vafasama reglugerð um að borga fólki fyrir að afsala sér mannréttindum sínum. Segir ráðherrann slíka lausn ódýrari en að veita hjálparþurfi einstaklingum viðunandi aðstoð. Í stað þess að borga fólki í viðkvæmri stöðu fyrir að afsala sér réttindum sínum ættu íslensk stjórnvöld að leita allra leiða til þess að hjálpa því. Okkur ber skylda til þess að bregðast við því ástandi sem ríkir í heiminum í dag og hjálpa sem flestum sem eru á flótta.

Vegna harðneskjulegrar stefnu Sigríðar Á. Andersen gagnvart hælisleitendum og embættisfærslna hennar í Landsréttarmálinu, þar sem hún gerðist brotleg við lög, telja Ungir jafnaðarmenn að ódýrara væri að greiða henni 1.000 evrur fyrir að hætta en að hún sitji áfram í embætti dómsmálaráðherra.

Ungir jafnaðarmenn hafa hrundið af stað söfnun og bjóða almenningi að taka þátt með því að leggja upphæð að eigin vali á reikning Ungra jafnaðarmanna. Ákveði Sigríður ekki að þiggja peningana og segja af sér ráðherraembætti munu þeir renna óskiptir til Rauða kross Íslands, sem vinnur ómetanlegt starf í þágu hælisleitenda á Íslandi.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með millifærslu á reikning Ungra jafnaðarmanna. Reikningsnúmer 0301-26-006907, kennitala 690200-3760.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert