„Ellefta langreyðarfóstrið í sumar“

Kristján segir það ekkert nýnæmi að þungaðar langreyðarkýr séu veiddar.
Kristján segir það ekkert nýnæmi að þungaðar langreyðarkýr séu veiddar. mbl.is/Ómar

„Þetta er bara svona í dýraríkinu, við ráðum ekki við það. Samtals hafa komið ellefu fóstur í sumar,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., spurður um veiði á kelfdri langreyðarkú, sem dýraverndunarverndunarsamtökin Hard to Port birtu myndir af í gær. 

„Þetta gerist í hvalveiðum, og víðar í dýraríkinu þar sem veiðar eru stundaðar, alls staðar í heiminum. Þetta hefur verið birt í skýrslum árlega frá 1948. Þetta er ekkert að gerast í fyrsta skipti í dag,“ segir Kristján.

Hann bendir einnig á að kelfdar kýr hljóti að vera góðar fréttir fyrir hvalastofninn. „Ef við veiddum hér heilt sumar og það kæmu engin fóstur þá væri eitthvað að.“

Veiðar á kálffullum kúm leyfðar

„Með því að leyfa hvalveiðar þá ertu alltaf að leyfa veiðar á kálffullum kúm.“ Þetta segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur og aðjunkt í líffræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is

„Þegar verið er að veiða þessa hvali þá er ekki nokkur leið að gera greinarmun á kynjum. Kýrnar ganga með í ár svo það eru töluverðar líkur á að veidd sé kýr sem er á einhverju stigi meðgöngunnar,“ segir Edda Elísabet.

Myndin sem Hard to Port birti í gær.
Myndin sem Hard to Port birti í gær. Ljósmynd/Hard to Port

Samkvæmt 2. gr reglugerðar um hvalveiðar er bannað að veiða hvalkálfa, hvali á spena og kvenkyns hvali sem kálfar eða hvalir á spena fylgja. Hins vegar er ekki bannað að veiða kelfdar hvalkýr, enda engin leið að vita hvort þær eru kelfdar eða ekki áður en þær eru veiddar.

„Ef þú ert að veiða þessi dýr þá veistu aldrei hvað þú ert að veiða nema bara hvort að dýrið er um það bil fullorðið eða ekki. Þú gerir ekki greinarmun á törfum og kúm, eða hvort þær eru kynþroska eða ekki,“ segir Edda Elísabet og bendir í þessu samhengi á stjórnun hreindýraveiða, þar sem hægt er að gera greinarmun á törfum og kúm, aldri o.s.frv.
„Þú getur ekki með nokkru móti greint [kelfdar langreyðarkýr] nema með því að taka blóðsýni úr þeim og greina það áður en þú drepur þær.“

Ekki rétt að hverfa frá hvalveiðistefnunni

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur ekki rétt að hverfa frá þeirri meginstefnu Íslands að viðhalda rétti til að nýta hvalastofna við landið með sjálfbærum hætti líkt og aðrar lifandi auðlindir hafsins, samkvæmt svari hans við fyrirspurn um hvalveiðar, sem birt var á vef Alþingis 28. júní.

Við spurningunni Styður ráðherra að hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin? Segir ráðherra m.a.: „Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem Ísland hefur af sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins hefur stefna stjórnvalda verið sú að standa gegn því að grafið verði undan meginreglunni um sjálfbæra nýtingu sem byggð er á vísindalegri ráðgjöf, þ.m.t. með því að gerðar séu sérstakar undantekningar frá meginreglunni varðandi ákveðna flokka dýra svo sem sjávarspendýr.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur ekki rétt að hverfa frá þessari meginstefnu Íslands.“

Ekki náðist í Kristján Þór við vinnslu fréttarinnar en aðstoðarmaður hans staðfesti að svarið stæði ennþá.

Kristján Þór Júlíusson sagði í svari frá 28.júní ekki rétt …
Kristján Þór Júlíusson sagði í svari frá 28.júní ekki rétt að hverfa frá meginstefnu Íslands í hvalveiðimálum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is