Munu hafa öryggi iðkenda í 1. sæti

Af fundinum í dag.
Af fundinum í dag. mbl.is/Arnþór

„Það er mjög áberandi á Íslandi hvað hlutfall þátttakenda í íþróttum er hátt. Það sem við erum að gera nær til svo stórs hóps. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þetta sé skýrt og faglega unnið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Starfshópur ráðuneytisins kynnti í dag tillögur um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Tillögurnar voru kynntar fyrir ríkisstjórninni í morgun og sagði Lilja á fundinum að mikil ánægja hefði verið með þær.

Á meðal tillaganna sem kynntar voru er að til staðar sé óháður aðili sem tekur við ábendingum um ofbeldi og aðra óæskilega hegðun innan íþrótta- og æskulýðsstarfs og getur komið þeim í réttan farveg, en ráðuneytið er nú að vinna að frumvarpi um slíkan aðila.

Þá er mikilvægi fræðslu og forvarna um kynferðislegt ofbeldi einnig áberandi á meðal tillaganna.

Samráðshópurinn var skipaður í kjölfarið af #églíka eða #metoo-yfirlýsingum nokkurra íþróttakvenna í Kastljósi í byrjun árs.

„Mér fannst mjög mikilvægt að ná strax utan um þetta mál,“ sagði Lilja. „Það sem við erum að gera er að auka öryggi iðkenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert