Skólar Hafnarfjarðar nánast fullmannaðir

Ljósmynd/Hafnarfjaðarbær

Einungis vantar að manna 0,7% stöðugildi leikskólakennara hjá Hafnafjarðarbæ. Enga grunnskólakennara vantar hjá bænum og eru frístundarheimili vel mönnuð. Þetta segir Einar Bárðarson, upplýsingafulltrúi bæjarins. 

„Okkur vantar að ráða í 0,7% stöðugildi sem veldur því að fjögur börn komast ekki inn á leikskólann akkúrat í dag. Við gerum ráð fyrir því að það verði leyst á næsta sólarhringnum. Staðan í grunnskólum er bara mjög góð og ekki er vitað til þess  það vanti neina grunnskólakennara eins og staðan er í dag,“ segir Einar sem bendir á að það hafi gengið óvenju vel að ráða grunn- og leikskólakennara.

„Staðan er betri núna en hún var á sama tíma í fyrra. Fyrir tveimur og hálfum mánuði var staðan verri en á sama tíma fyrir ári síðan þannig að þetta er í raun mjög fljótandi.“

Þegar Morgunblaðið kannaði mönnun í grunn- og leikskólum fyrr í mánuðinum voru stöður fimm grunnskólakennara og rúmlega sex leikskólakennara auglýstar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Í gær var sagt frá því á mbl.is að tuttugu og sjö börn í Seltjarnarnesbæ myndu ekki komast í aðlögun á þeim tíma sem áður var lofað. Ástæðan er mannekla en nýverið var ákveðið að opna tvær nýjar deildir á leikskóla Seltjarnarness. Enn á eftir að ráða í fimm stöðugildi leikskólakennara svo hægt sé að opna deildirnar. 

Í dag er von á tölum frá Reykjavíkurborg um það hversu mörg stöðugildi grunn- og leikskólakennara á eftir að manna. Þegar Morgunblaðið kannaði stöðuna þar í byrjun mánaðar voru auglýstar stöður tólf grunnskólakennara og tuttugu og tveggja leikskólakennara á vef borgarinnar.

Í könnun Morgunblaðsins fyrr í mánuðinum kom fram að færri stöður grunn- og leikskólakennara væru auglýstar í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu heldur en á sama tíma fyrir ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert