Þurfa örvun og hreyfingu í einangruninni

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir segir hunda þurfa andlega örvun, hreyfingu og …
Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir segir hunda þurfa andlega örvun, hreyfingu og samskipti til að lifa eðlilegu lífi. Ljósmynd/Aðsend

Á meðan einangrunarkrafan er í gildi munum við gera okkar allra besta til að hundar fái allt sem þeir þurfa til að lifa eðlilegu lífi. Að þeir fái andlega örvun, hreyfingu og samskipti,“ segir Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, sem rekur einangrunarstöðina Mósel í nágrenni Hellu. 

Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) hefur gagnrýnt langa einangrunarvist gæludýra sem flutt eru hingað til lands og hefur kallað eft­ir áhættumati land­búnaðarráðuneyt­isins um ein­angr­un­ar­vist gælu­dýra sem átti að vera til­búið í apríl á þessu ári. 

Í dag er hundum og köttum gert að dvelja fjórar vikur í einangrun eftir að hafa sætt fjölda bólusetninga og sýnatöku mánuðina fyrir komuna til landsins. Gagnrýnir HRFÍ m.a. að hvergi tíðkist jafnlöng einangrunardvöl og hér á landi, sem og að eigendur fái ekki að vera í neinum samskiptum við dýrin meðan á einangrunardvölinni stendur.

Útsýnið frá Móseli er ekki af verri endanum.
Útsýnið frá Móseli er ekki af verri endanum. Ljósmynd/Aðsend

Hentar illa að gera ekkert

Sagði Herdís Hallmarsdóttir, formaður HRFÍ, í samtali við mbl.is í síðustu viku að hún þekkti sjálf dæmi þess að hundar hafi farið illa út úr einangrunarvistinni.

Spurð hvað henni finnist um lengd einangrunardvalarinnar segir Jóhanna: „Þetta eru reglur sem við þurfum að fylgja, en af því að það er þessi fjögurra vikna einangrunarkrafa þá fór ég af stað til að búa til einangrunarstöð þar sem hundum á ekki að líða illa,“ segir hún. Sjálf þjálfar Jóhanna og ræktar vinnuhunda og kveðst hafa fundið að fjögurra vikna einangrun, án nokkurrar virkni, hentaði þeim illa. „Fyrir þá var það að standa í fjórar vikur bara ekki nóg. Þeir þurftu eitthvað meira. Þetta eru hundar af þeirri tegund að þeir verða bara að fá að vinna annars verða þeir bara hálfruglaðir og það á við hvort heldur sem er í einangrun eða lífinu almennt,“ útskýrir hún.

Dagana 3.-5. september næstkomandi mætir fyrsti hópur 16 hunda og þriggja katta í Mósel. Það er sá fjöldi sem hægt verður að taka á móti í hverjum mánuði og er fullbókað í stöðinni út árið. „Næst er er laust fyrir bókanir í mars,“ segir Jóhanna.

Í Einangrunarstöðinni í Reykjanesbæ er næst laust fyrir bókanir í febrúar á næsta ári og því ljóst að innflutning gæludýra þarf að ákveða með a.m.k. hálfs árs fyrirvara.

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir með manni sínum Ingvari Guðmundssyni sem rekur …
Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir með manni sínum Ingvari Guðmundssyni sem rekur einangrunarstöðina með henni. Ljósmynd/Aðsend

Með flatskjái í herbergjunum

Einangrunarstöðin Mósel verður með herbergi fyrir dýrin í stað búra. „Við ætlum að reyna að hafa þetta sem líkast því sem er heima hjá þeim,“ útskýrir Jóhanna. „Það er flatskjár inni hjá þeim og þar er sérstakt hundasjónvarp og já það er til,“ segir hún og hlær. Þar verði líka hægt að stilla á útvarp eða klassíska tónlist, sem hafi mjög róandi áhrif á hunda. Nettengdar vefmyndavélar verða einnig í herbergjunum og er eigendum þannig gert kleift að fylgjast með dýrum sínum.  

Jóhanna er menntaður hundaþjálfari frá  Bandaríkjunum. „Ég er sérfræðingur í hegðun hunda, „canine trainer and behaviour specialist“, og í því námi voru nokkrir áfangar m.a. í því hvernig maður stjórnar „kenneli“ eða hundabyrgi, þar sem  hundar eru margir í sama húsi. Ég lærði líka um sóttvarnir, þrif, umgengni og annað slíkt. Þannig að ég hef þennan grunn úr mínu námi og þess vegna bjó ég til þessa einangrunarstöð.“

Hlaupabretti verða í Móseli, svo hundarnir geti fengið að losa orku og eins verður boðið upp á hundafimitæki og hlýðniæfingar til að veita þeim bæði andlega og líkamlega örvun. „Það mikilvægasta er þó að hjá mér verða starfsmenn sem eru búnir að nema hjá mér í um tvö ár og eru búnir að læra hvernig við höldum hundum glöðum og sáttum,“ segir Jóhanna. „Þeir kunna því ekki bara að umgangast hundana, heldur geta líka reynt þannig á hausinn á þeim að þeir verða þreyttir.“ Með því verði gert meira en að sinna einungis grunnþörfum dýranna.

Jóhanna er sjálf með australian cattle-hund og schaeffer af vinnuhundalínum og gerir ráð fyrir að eiga eftir að flytja inn fleiri tegundir hunda sem eru ætlaðar til vinnu. Mósel eigi því að geta sinnt þörfum vinnuhunda.

Herbergi verða fyrir dýrin í stað búra. „Við ætlum að …
Herbergi verða fyrir dýrin í stað búra. „Við ætlum að reyna að hafa þetta sem líkast því sem er heima hjá þeim,“ útskýrir Jóhanna. Ljósmynd/Aðsend

Á að vera langt og strangt ferli

Spurð hvernig samstarf við MAST gangi segir hún það ganga vel núna. Lokaúttekt er eftir, en rúmt ár er frá því að vinna við stöðina hófst. „Það að byrja með svona einangrunarstöð er ofboðslega langt og strangt ferli,“ segir Jóhanna og kveður þau hafa verið búin að fullhanna húsið, sem er yleiningahús, áður en þau fengu starfsleyfi. „Þannig að þeir hjá MAST vita upp á hár hvernig allt þar er.“

Hún segir það vissulega hafa komið sér á óvart hvað þetta var langt og strangt ferli „en að sama skapi þá á þetta ekki að vera auðvelt. Eftir á að hyggja þá skilur maður að þetta á að vera langt og strangt, því þetta þarf að vera í lagi.“

Viðbrögðin við Móseli hafa verið jákvæð að sögn Jóhönnu og fá þau töluverðan fjölda fyrirspurna jafnt frá fólki sem er að flytja heim með gæludýr sín og svo fólki sem er að flytja dýrin inn sérstaklega, t.a.m. í sýningar- eða ræktunarskyni.

Jóhanna er líka spennt að opna stöðina. „Ég hlakka rosalega til að hitta alla þessa hunda og fá að vera í samskiptum við eigendur þeirra. Markmið okkar er að það séu opin samskipti og að það sé alltaf hægt að ná í okkur og spyrja. Við erum svo líka að gera samning við dýralæknastöðina fyrir austan, því ég vil að það sé dýralæknir ofan á þessa grunnþjónustu sem MAST veitir. Þannig metur dýralæknir á okkar vegum heilbrigði hundanna þegar þeir eru komnir inn og ráðleggur um hreyfingu og fóðrun og meðhöndlar þá ef eitthvað kemur upp á. Á staðnum verður líka dýralæknaaðstaða, þannig að það verður hægt að bregðast við ef að eitthvað gerist.“

Koma á fyrir hlaupabretti og hundafimitækjum til að örva dýrin …
Koma á fyrir hlaupabretti og hundafimitækjum til að örva dýrin andlega og líkamlega. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert