Veitt dvalarleyfi vegna hvarfs fjölskylduföður

William Ky­erema­teng og kona hans Th­eresa Kusi Daban með börn­um …
William Ky­erema­teng og kona hans Th­eresa Kusi Daban með börn­um sín­um Stef­aniu, Nathaniel og Aaron. William hvarf sporlaust í mars og ekkert hefur spurst til hans síðan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kærunefnd útlendingamála veitti einstæðri móður og þremur börnum hennar frá Gana dvalarleyfi í gær á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Upphaflegri umsókn fjölskyldunnar um dvalarleyfi var synjað en breyttar aðstæður eftir að fjölskyldufaðirinn hvarf sporlaust í mars sl. urðu til þess að mál þeirra var endurupptekið.

„Það hefði verið ómannúðlegt að senda þau úr landi miðað við aðstæður,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is.

Endurupptökubeiðni samþykkt í sjöttu tilraun

Therese Kusi Daban og eiginmaður hennar William Ky­erema­teng komu hingað til lands ásamt börnum sínum fyrir tveimur og hálfu ári. Þau sóttu um hæli hjá Útlendingastofnun en umsókn þeirra var synjað. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá synjun.

„Það er í raun og veru á þeim tíma endalok málsins,“ segir Magnús. Fjölskyldan sótti þó ítrekað um endurupptöku málsins meðal annars á þeim grundvelli að Theresa hefði verið fórnarlamb mansals og að líf hennar væri í hættu yrði hún send til Gana.

Það var ekki fyrr en í sjöttu tilraun að kærunefnd útlendingamála varð við beiðni um endurupptöku.

„Ástæða þess að málið er endurupptekið er sú að eiginmaður Theresu hverfur og það hefur ekkert til hans spurst síðan. Það er annað að senda einstæða móðir úr landi með þrjú börn heldur en að senda foreldra saman með þrjú börn,“ útskýrir Magnús en tekur fram að formlega séð hafi dvalarleyfið verið veitt á þeim grundvelli að málsmeðferðartíminn hafi dregist óhóflega.

Börnin þekkja ekkert nema Ísland

Börnin eru tveggja, fjögurra og sex ára gömul. Elsta barnið man óljóst eftir dvöl í öðru landi en miðjubarnið ekki. Yngsta barnið fæddist hér á landi og þekkir því ekki að búa í öðru landi.

„Þessir krakkar þekkja bara Ísland. Þau líta öll á Ísland sem sitt land. Þau tala íslensku og eru búin að vera í skóla og leikskóla hér í tvö og hálft ár. Þau eru búin að aðlagast,“ segir Magnús.

„Það hefði verið mjög ómannúðlegt að senda þau úr landi miðað við aðstæður. Þess vegna anda þau léttar vegna þess að þetta slapp. Þó svo að þau sakni auðvitað föður síns,“ bætir hann við.

„Börnin og móðir þeirra geta loks andað léttar og litið björtum augum til framtíðar á Íslandi,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert