„Við viljum auðvitað gera enn betur“

Morgunblaðið/Ómar

„Við verðum ekki sátt fyrr en við erum búin að fylla allar stöður og öll börn sem hafa fengið boð um vistun fái hana þannig að óvissu fyrir foreldrana sé eytt. Það er gott að sjá hvað er búið að manna margar stöður en við viljum auðvitað gera enn betur,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, um ráðningarmál skóla- og frístundastarfs borgarinnar sem kynnt var í gær.

Þar kemur fram að mun betri staða sé í ráðningarmálum skóla og frístundastarfs en í fyrra, það er búið að ráða í 98% stöðugilda í grunnskólum og 94% í leikskólum. Í grunnskólum borgarinnar vantar að ráða í rúmlega 33 stöðugildi en á sama tíma í fyrra átti eftir að ráða í tæplega 60 stöðugildi. Enn er óráðið í 61,8 stöðugildi í leikskólum borgarinnar en á sama tíma í fyrra átti eftir að ráða í 120 stöðugildi í leikskólum.

Miklar úrbætur að baki

Skúli segir að margt sé búið að gera til að stuðla að þessari bættu stöðu. „Það er margt sem búið er að gera. Það hefur verið mjög þétt markhópavinna, sérstaklega gagnvart háskólafólki og ungu fólki almennt. Sömuleiðis hefur samstarf á milli stjórnenda hjá leikskólunum og mannauðsdeildarsviðsins verið mikið. Að auki held ég að aðgerðir sem við fórum í í ráðinu með haustinu og aftur í vor hjálpi til við að undirstrika að þetta er málaflokkur í sókn.“

Aðspurður hverjar þessar aðgerðir séu segir Skúli: „Bæði launin og starfsumhverfið hafa verið bætt. Aukið rými og aukinn undirbúningstími og fleira starfsfólk á elstu deildum leikskólanna. Þetta eru allt mikilvægar aðgerðir sem kallað hefur verið eftir og við höfum náð að mæta.“

103 stöðugildi hjá frístundaheimilum ómönnuð

Hvað mönnun á frístundarheimilum varðar er staðan þar ekki jafngóð og í grunn- og leikskólum. Þar á enn eftir að ráða í 103 stöðugildi en á sama tíma fyrir ári var ekki búið að ráða í 114 stöðugildi. „Við sjáum ekki jafnmikinn mun til batnaðar þar. Það þarf að hafa í huga að það gerist gríðarlega margt núna þessa dagana þegar okkar helsti markhópur, sem er háskólafólk, fær sínar stundatöflur. Við vitum að það er hópur sem ætlar að koma en getur ekki neglt sig niður á daga strax. Við reiknum með að sjá verulega breytingu þar í rétta átt þegar við fáum næstu tölur.“

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að mönnun grunn- og leikskólakennara hafi einnig gengið betur í Hafnarfirði en áður. Þar vantar einungis einn leikskólakennara í 0,7% stöðugildi. 

Þegar Morgunblaðið gerði könnun á því hversu margar stöður leik- og grunnskólakennara væru auglýstar, fyrr í mánuðinum auglýstu öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nema Kópavogur eftir færri kennurum en á sama tíma fyrir ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert