Endurgreiða ekki mismuninn

Með ákveðni og skipulagi komust þessir gestir fremst í gær. …
Með ákveðni og skipulagi komust þessir gestir fremst í gær. Skipti þá engu hvort þeir höfðu keypt miða á svæði A eða B. mbl.is/​Hari

Engar endurgreiðslur munu fara fram vegna miðamála á tónleikum Arcade Fire í Laugardalshöll í gær. Seldir voru miðar á tvö svæði, A og B, og kostaði 2.000 krónum meira inn á svæði A. Stuttu fyrir tónleika var ákveðið að sameina svæðin tvö, þar sem svo fáir miðar höfðu selst á svæði B. Þetta segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri tix.is, í skriflegu svari til mbl.is.

Tix.is sá um miðasölu fyrir tónleikana en í svari Hrefnu segir m.a.: „Við fengum að heyra af þessu seint í gær, enda var ákvörðunin bara tekin í gær.“ Hún segir jafnframt að allar ákvarðanir varðandi hvernig viðburðir fara fram séu teknar hjá þeim sem að þeim standa, en ekki hjá Tix miðasölu. 

„Það var tekin ákvörðun um það í gær að endurgreiða ekki mismuninn en ástæðan fyrir að ekki var svæðaskipt er sú að aðeins örfáir miðar seldust á B-svæði og þótti það hreinlega koma illa út að stúka þessa örfáu einstaklinga af aftast,“ segir í svari Hrefnu.

Uppfært klukkan 13.57

Betra flæði í húsinu

Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn Stephensen, eigandi fyrirtækisins Hr. Örlygs, sem hélt tónleikana: „Miðasalan á svæði B var bara sáralítil, og við sáum það að við vorum að setja upp grindur fyrir rétt rúmlega sjötíu manns. Það sem hefði gerst þá er að það hefði litið ákaflega kjánalega út. En einnig hefði girðingin þurft að fara þvert yfir húsið, og þá hefði hún verið farin að minnka athafnasvæði fólks á svæði A. Það skapaði bara miklu betra flæði í húsinu [að sameina svæðin]. Fyrir vikið fengu þeir sem voru með miða á B-svæði óvæntan glaðning en þetta breytti engu fyrir fólkið sem var með miða á A-svæði. Þeir voru ennþá á besta stað í húsinu og voru í rauninni með betra svigrúm en ef við hefðum [skipt svæðunum].“

Hann segir, eins og Hrefna, að ekki muni koma til þess að mismunurinn á miðunum verði endurgreiddur enda hafi þeir sem keyptu miða á svæði A hvorki fengið minni né lakari vöru en það átti að fá. „Það er staðið við alla samninga milli kaupanda og seljanda í því máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert