Fjöldi kennslutíma á pari við OECD-ríkin

mbl.is/​Hari

Samkvæmt gögnum OECD fyrir árið 2017 er heildarfjöldi kennslutíma í grunnskólum landsins rúmlega 7.600 klukkustundir, sem er á pari við meðaltal OECD-ríkja. Noregur er rétt undan Íslandi en kennslutímar í grunnskólum þar fyrir árið 2017 voru samtals 7.894 klst. Danmörk er langefst með 10.960 klst. Tölurnar ná til kennslutíma frá upphafi barnastigs til loka unglingastigs. Í skýrslum OECD um nám á barna- og unglingastigi er þó bent á að það er ekki fjöldi kennslutíma sem skiptir sköpum um hvað varðar námsgæði, heldur er meginþátturinn sá hvernig tími nemenda er nýttur og hvað fög eru kennd.

Skipulag grunnskóla landsins

Skipulag grunnskóla landsins kemur reglulega upp í umræðuna er skólar hefjast á nýjan leik eftir sumarfrí. Til að mynda hefur umræða vegna fjöldi frídaga grunnskólabarna, sem eru 73 á hverju ári samkvæmt úttekt Sólveigar Ragnheiðar Gunnarsdóttur á Facebook, vakið mikla athygli, og fjallað var um á mbl.is í fyrradag.

Í samtali við mbl.is sagði Sólveig m.a. að frídagarnir væru íþyngjandi, sérstaklega fyrir einstæða og efnaminni foreldra. „Þeir eru ekki að fara að kaupa einhver rándýr námskeið fyrir börnin sem eru kannski orðin leið á frístundinni. Ef þú vilt leyfa þeim að fara í eitthvað annað en frístundina er það mjög dýrt,“ sagði Sólveig við mbl.is.

Sérstakir starfsdagar kennara á starfstíma nemenda eru fimm, og átta utan starfstíma nemenda. Miða skal við að lágmarki verði þrír af fimm starfsdögum samræmdir í grunnskólum og leikskólum í næsta nágrenni, segir í upplýsingum við skóladagatöl Reykjavíkurborgar.

Sýna fríum fólks skilning

Aðspurður hvernig viðhorf atvinnurekenda eru gagnvart fríum fólks vegna barna segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að í heild séu atvinnurekendur umburðarlyndir gagnvart fríum hjá starfsfólki vegna barna sinna.

„Við sjáum það núna við setningu skólanna, þar fylgja foreldrar börnum sínum í yfirgnæfandi meirihluta tilvika. Auðvitað er þessu sýndur skilningur. Ég hef hins vegar tekið fram að þetta eru mjög margir frídagar yfir árið og maður sér það þegar þessi mál eru rædd að miklar undirtektir eru við því að breytinga sé þörf,“ segir Halldór einnig í samtali við Morgunblaðið

Skóladagar skulu vera 180

Samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands skulu skóladagar nemenda í grunnskólum vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Þegar litið er á fjölda skóladaga hjá nemendum á barna- og unglingastigi annars staðar á Norðurlöndunum kemur nokkur munur í ljós.

Skóladagar danskra nemenda eru 200 talsins og frídagar 51 samkvæmt óformlegri úttekt blaðamanns. Munurinn á fjölda frídaga milli íslenskra og danska grunnskóla barna skýrist helst á því að skólaárið í Danmörku er lengra en það íslenska. Nær það frá miðjum ágúst til loka júnímánaðar. Skólalok í Danmörku eru því um þremur vikum seinna en á Íslandi og sumarfríið þannig styttra. Þá eru skóladagarnir 178 hjá sænskum nemendum, 190 í Noregi og 187 hjá Finnum, samkvæmt gögnum OECD. Í mörgum öðrum Evrópulöndum eru skóladagarnir á bilinu 170-180 talsins, en meðalfjöldi skóladaga á barnastigi hjá OECD-ríkjum er 185.

Veglegri vetrarfrí erlendis

Við nánari athugun blaðamanns á frídögum grunnskóla á Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum sést að vetrarfrí eru talsvert lengri þar en gengur og gerist í grunnskólum hér. Samkvæmt skóladagatali Reykjavíkurborgar eru þrír dagar í vetrarleyfi í seinni hluta október og tveir dagar í lok febrúar. Ef helgar eru teknar með í reikninginn þá eru þessi tilteknu vetrarfrí fimm dagar í október og fjórir dagar í febrúar. Til samanburðar eru vetrarfrí grunnskóla í Danmörku, Svíþjóð og Noregi fimm virkir dagar í október og aðrir fimm í febrúar, níu dagar hvort um sig ef helgar eru taldar með.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert