Hringbraut sektuð um tvær milljónir

Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur verið sektuð um alls tvær milljónir króna …
Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur verið sektuð um alls tvær milljónir króna með fjórum ákvörðunum fjölmiðlanefndar.

Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur verið sektuð um samtals tvær milljónir króna fyrir að gerast brotleg við fjölmiðlalög, í fjórum aðskildum ákvörðunum fjölmiðlanefndar, sem birtar voru á vefnum í dag.

Lúta brotin meðal annars að kostuðum auglýsingum, áfengisauglýsingum, óheimiluðum áhrifum kostenda á efnistök, rétti viðmælanda til friðhelgi einkalífs og einnig því að ekki hafi verið gætt að hlutlægni og nákvæmni í fréttatengdu efni.

Í fyrsta lagi er sektað fyrir þáttinn Þrotabú Sigurplasts, sem var hluti af þáttaröðinni Atvinnulífið. Þátturinn var sýndur 8. febrúar síðastliðinn. Þátturinn var kostaður af fyrirtækinu KB-umbúðir, en forráðamaður þess fyrirtækis er jafnframt fyrrverandi framkvæmdastjóri Sigurplasts, sem þátturinn fjallaði um.

Í ákvörðun fjölmiðlanefndar segir að umfjöllun þáttarins, sem sé settur fram í anda fréttaskýringarþátta, „einkennist af einhliða gagnrýni fyrrum eigenda og starfsmanna Sigurplasts, og núverandi forráðamanns KB umbúða, kostanda þáttarins, á framgöngu nafngreinds skiptastjóra þrotabús Sigurplasts, ásamt ítrekuðum myndbirtingum af honum.“

Þátturinn um Þrotabú Sigurplasts er ekki lengur aðgengilegur á vef …
Þátturinn um Þrotabú Sigurplasts er ekki lengur aðgengilegur á vef Hringbrautar. Skjáskot/Vefur Hringbrautar

Fjölmiðlanefnd telur þáttinn uppfylla skilyrði þess að teljast fréttatengt efni, en á vef Hringbrautar var hann þó merktur sem kynningarefni. Nefndin telur það ekki standast og sektar sjónvarpsstöðina um 500.000 kr. fyrir óheimila kostun fréttatengds efnis, en nefndin telur einnig Hringbraut hafi ekki gætt ekki að hlutlægni og nákvæmni í hinu fréttatengda efni.

Ákvörðun fjölmiðlanefndar um Þrotabú Sigurplasts

Ekki gætt að friðhelgi einkalífs seðlabankastjóra

Í öðru lagi var sektað fyrir þættina Gjaldeyriseftirlitið, sem sömuleiðis var í þáttaröðinni Atvinnulífið og birtust á sjónvarpsstöðinni 2. og 10. október í fyrra. Þar var fjallað um hið svokallaða Aserta-mál. Í ákvörðun fjölmiðlanefndar segir að þættirnir hafi ekki verið auðkenndir sérstaklega sem kostaðir þættir, en í viðtali Stundarinnar við framleiðanda þáttanna í febrúar síðastliðnum hafi það komið fram að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hafi kostað þættina „að langmestu leyti“. Þættirnir voru svo auðkenndir á vef Hringbrautar sem kostað efni.

„Umfjöllun í þáttunum Gjaldeyriseftirlitið einkennist að stærstum hluta af einhliða gagnrýni á rannsókn og framkvæmd gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, án þess að sjónarmið fulltrúa bankans komi fram, nema í hljóðbrotum af samtali seðlabankastjóra og forstjóra Samherja hf., sem virðast tekin upp án vitundar seðlabankastjóra. Er framangreint til þess fallið að renna stoðum undir það að kostandi þáttanna, Samherji hf. hafi haft áhrif á innihald og efnistök hins kostaða fréttatengda efnis og að um hafi verið að ræða einhliða umfjöllun sem ekki hafi verið í samræmi við hlutlægnikröfur 26. gr. laga um fjölmiðla,“ segir í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Hringbraut er sektuð um 500.000 krónur fyrir óheimila kostun fréttatengds efnis og fjölmiðlanefnd telur einnig að þættirnir Gjaldeyriseftirlitið brjóti gegn 26. grein fjölmiðlalaga, með því að gæta ekki að rétti viðmælanda (í þessu tilfelli seðlabankastjóra) til friðhelgi einkalífs og að hlutlægni og nákvæmni í hinu fréttatengda efni.  

Ákvörðun fjölmiðlanefndar um Gjaldeyriseftirlitið 

Spurt hvort nefndin hefði ekki mannskap til að fylgjast með útvarpinu

Í þriðja lagi telur fjölmiðlanefnd að Hringbraut hafi brotið fjölmiðlalög með umfjöllun þáttarins Þorrinn 2018, um áfengar vörutegundir Ölgerðarinnar. Þátturinn var sýndur 23. janúar 2017 og telur fjölmiðlanefnd að í þættinum hafi verið viðskiptaboð fyrir áfengi með yfir 2,25% áfengisstyrkleika.

Ekki nóg með það, heldur hafi viðskiptaboð í þættinum einnig verið dulin og hlutfall auglýsinga í þættinum innan hverrar klukkustundar hafi verið yfir 20%, eða 15-19 mínútur af alls hálftíma þætti.

Sektin vegna þessar ákvörðunar nemur einnig 500.000 kr., en fjölmiðlanefnd óskaði eftir sjónarmiðum og upplýsingum frá Hringbraut vegna þáttarins. Í svari sínu sögðu forsvarsmenn Hringbrautar að þeir furðuðu sig á því að útvarpsstöðvar gætu verið með heilu þættina sem væru auðheyranlega seldir.

„Hefur fjölmiðlanefnd ekki mannskap til að fylgjast með þeim,“ sagði í svari Hringbrautar og því næst var bent á á að Stöð 2 Sport auglýsti Heineken-bjór í kringum Evrópufótboltann og að erlendar stöðvar sem nást á Íslandi, svo og tímarit sem eru seld hérlendis auglýstu áfengi án athugasemda.

„Þarf ekki að fara fram á að auglýsingar hjá þessum erlendu stöðvum sem Vodafone og Síminn dreifa séu ruglaðar og þarf ekki að blokkera auglýsingar í erlendum tímaritum sem eru seld hér. Hér er ekki jafnt skipt,“ sagði í svari sjónvarpsstöðvarinnar.

Ákvörðun fjölmiðlanefndar um Þorrann 2018

22,19 af 30 mínútum taldar auglýsingar

Í fjórða og síðasta lagi var sjónvarpsstöðin sektuð fyrir viðskiptaboð í þættinum Fermingar sem sýndur var 12. janúar 2018, en að sögn Hringbrautar var þátturinn unninn í samstarfi við þá aðila sem kynntu vörur sínar í þættinum.

„Slík tilkynning birtist hins vegar ekki í sjónvarpsþættinum sjálfum, hvorki með sjónrænum né hljóðrænum hætti,“ segir í ákvörðun fjölmiðlanefndar. Sú auðkenning var ekki talin fullnægjandi til að hægt væri að ákvarða hvort um kostað efni eða ritstjórnarefni væri að ræða.  Einnig var auglýsingahlutfallið í þessum hálftíma langa þætti talið fara yfir 20% og vel það, en fjölmiðlanefnd mat það svo að 22,19 mínútur af alls 30 hefðu verið auglýsingar.

Sektin fyrir þessi brot, eins og önnur, nam 500.000 kr.

Ákvörðun fjölmiðlanefndar um Fermingar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert