Ekki nokkur leið að sjá muninn

Talið er að um karlkyns blending steypi- og langreyðar sé …
Talið er að um karlkyns blending steypi- og langreyðar sé að ræða, en glöggir gætu reynt að dæma það af kvið skepnunnar á myndinni. Ljósmynd/Hafrannsóknarstofnun

„Það er ekki nokkur leið að sjá hvort um er að ræða langreyði eða blending við veiðarnar, en það sést þegar rengið og skíðin eru skoðuð eftir á,“ segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við Morgunblaðið, en hvalur sem talinn er vera blendingur steypi- og langreyðar veiddist í utanverðum Faxaflóa og var dreginn að landi í Hvalfirði í gærmorgun.

Þetta yrði þá annar blendingurinn sem veiðist í ár, en Kristján telur sex slíka blendinga hafa veiðst frá því á níunda áratug síðustu aldar, en tekur fram að enn sé beðið niðurstöðu DNA-prófs. Hann kvað dýrið vera karlkyns og minna en það sem veiddist í júlí sl. Spurður hvað gert yrði við hvalinn sagði hann að afurðirnar verði frystar. Kristján vísaði gagnrýni á bug og kvað hana koma að mestu frá hópum frá útlöndum sem væru hér og sætu nú um starfsemina.

Niðurstaða brátt væntanleg

„Niðurstaða DNA-rannsóknar á hvalnum ætti að liggja fyrir næsta þriðjudag, en bráðabirgðaskoðun gefur til kynna blending langreyðar og steypireyðar,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, en starfsmenn stofnunarinnar tóku sýni strax í gærmorgun og sendu til frekari athugunar.

„Það er nokkuð merkilegt að finna tvö svona dýr á sama árinu, en náttúran býður upp á þetta,“ segir Þorsteinn, sem segir þurfa að kanna þetta betur. Spurður hvort blendingar sem þessir geti fjölgað sér, segir Þorsteinn að enn hafi ekki fundist vísbendingar um það, utan ein kýr með fóstri sem virtist óeðlilega smátt. Blendingar að öðrum hlut en til helminga hefðu enn ekki fundist. Aðspurður svarar Þorsteinn að veiðar á langreyði í atvinnuskyni væru „vel innan marka sjálfbærni hérlendis“ og nýttust jafnframt við að meta ástand langreyðarstofnsins og lífríkis sjávarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert