„Þetta er ögrun“

Ólafía Kvaran tryggði sér í dag, fyrst íslenskra kvenna, þátttökurétt …
Ólafía Kvaran tryggði sér í dag, fyrst íslenskra kvenna, þátttökurétt á heimsmeistaramóti í Spartan, hindrunar- og þrekhlaupi. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var hrikalega gaman. Ég var ekki með neinar væntingar, innst inni var ég að vona að þetta væri búið og að ég gæti farið að slaka á, en þetta er auðvitað frá­bært,“ seg­ir Ólafía Kvar­an, sem tryggði sér í dag, fyrst ís­lenskra kvenna, þátttöku­rétt á heims­meist­ara­móti í Spart­an, hindr­un­ar- og þrek­hlaupi.

Ólafía vann sér inn keppn­is­rétt í Spart­an be­ast-flokki eft­ir að hún varð í 3. sæti í sínu öðru hlaupi í New York í mars en fyrst keppti hún ásamt þrem­ur öðrum á heims­meist­ara­mót­inu í liðakeppni í fyrra haust. Undankeppnin fyrir heimsmeistaramótið fór fram í dag í Glen Jean í Vest­ur-Virg­in­íu­ríki í Banda­ríkj­um og hafnaði Ólafía í 5. sæti í hlaupinu í sínum aldursflokki, 40-49 ára, en 16. sæti af öllum konunum, sem verður að teljast glæsilegur árangur. Tíu efstu í hverjum aldursflokki unnu sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramótinu.

Spartan beast-hlaupið er um 23 km ut­an­vega upp bratt­ar brekk­ur í skóg­lendi. Á hlaupaleiðinni eru 35 til 40 hindr­an­ir en keppendur vita ekki hverj­ar þær eru. Ólafía segir að hindranirnar hafi verið mun erfiðari en hún bjóst við. „En þetta var sjúklega gaman. Það er rosalega fallegt hérna, það var reyndar svolítið heitt fyrir Íslendinginn, 18 gráður þegar við byrjuðum í morgun um átta en fór svo upp í 26 gráður mjög fljótlega.“

Ólafía Kvaran vann sér inn keppn­is­rétt í Spart­an be­ast-flokki eft­ir …
Ólafía Kvaran vann sér inn keppn­is­rétt í Spart­an be­ast-flokki eft­ir að hún varð í 3. sæti í sínu öðru hlaupi í New York í mars. Ljósmynd/Aðsend

Skreið yfir erfiðustu hindranirnar

Meðal hindrana var sund sem Ólafía var ekki búin að undirbúa sig sérstaklega fyrir. „Það var rosalega mikið af bröttum brekkum, það liggur við að síðustu spottana þyrfti ég að skríða, þær voru svo brattar. Ég var ekki alveg búin að átta mig á því að það var sund, einhvers staðar á miðri leið þurftum við að fara út í vatnið að synda. Ég var búin að hundsa það og hélt í mesta lagi að ég væri að fara að vaða, en nei nei, þetta var alvörusund og allir settir í björgunarvesti og við þurftum að synda slatta.“

Töluverð óvissa fylgir hlaupinu vegna hindrananna en tveimur dögum fyrir hlaupið er birt kort af brautinni. „Þá sér maður hvaða lykkjur þarf að hlaupa og hvar hindranirnar eru en maður sér ekki hækkunina og brekkurnar. Í gærkvöldi lá ég yfir kortinu, en þetta er svolítið öðruvísi. Ég hef hlaupið nokkur maraþon og þá veit maður hvenær maður ætlar að drekka. En þegar allar þessar hindranir koma gat ég ekki ákveðið að ég ætlaði að fá mér gel eftir sjö kílómetra til dæmis, af því að maður er svo mislengi með hvern kafla, allt eftir hvernig hindranirnar eru. Ég hef sjaldan þurft að spá svona mikið í næringuna í hlaupi. Þetta er ögrun,“ segir Ólafía. 

Aðeins mánuður í heimsmeistaramótið

Heimsmeistaramótið í Spartan-hlaupi fer fram síðustu helgina í september, eftir rúman mánuð, í North Lake Tahoe í Kaliforníu. Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Ólafíu var hún enn þá að jafna sig eftir afrek dagsins og viðurkennir að hún sé ekki mikið farin að hugsa um undirbúning fyrir heimsmeistaramótið. „En auðvitað geri ég þetta! Ég er ótrúlega glöð,“ segir hún.

Það er nóg fram undan hjá Ólafíu en að heimsmeistaramótinu loknu liggur leið hennar, ásamt rúmlega 60 öðrum iðkendum í Boot Camp, í Spartan-hlaup í Dalls í Texas. „Ég fann að fólkið sem er að æfa með mér í Boot Camp er spennt fyrir þessu og ég auglýsti eftir fólki til að taka þátt í hlaupinu í Dallas með mér og við erum orðinn risa hópur, um 60 manns, og það eru margir mjög spenntir að prófa,“ segir Ólafía.

En hvað er það við utanvegahlaupin sem er svona skemmtilegt?

„Mér finnst æðislegt að fara út og hleyp rosa mikið í Heiðmörk og við Hvaleyrarvatn og Helgafell af því að ég bý Hafnarfirði. Það er kannski klisjukennt, en það er frábær „me-time“ að fara ein út.“

Ólafía segir einnig að utanvegahlaupin fari betur með líkamann en malbikið. „Svo er það náttúran, hún breytist svo. Maður er aldrei að hlaupa á sama stað þó að maður sé alltaf á sama staðnum.“

mbl.is