Kona slasaðist á höfði við Keili

Björgunarsveitarmenn þurftu að ganga 3-4 km yfir úfið og grýtt …
Björgunarsveitarmenn þurftu að ganga 3-4 km yfir úfið og grýtt hraun til að komast að konunni. Ljósmynd/Landsbjörg

Eldri kona hrasaði á göngu við Keili í gærdag og hlaut tvo skurði á höfði. Rúmlega tuttugu manns úr þremur björgunarsveitum auk sjúkraflutningamanna voru kallaðir út enda blæddi konunni mikið og aðstæður á vettvangi erfiðar, að sögn björgunarsveitarmanns. 

Slysið átti sér stað upp við fjallið Keili og því þurftu björgunarsveitarmenn að ganga um 3-4 km leið yfir úfið og grýtt hraun með börur og annan búnað. Eftir að búið var að hlúa að konunni og búa um skurðina gat hún þó gengið sjálf að sjúkrabílnum til frekari aðhlynningar.

„Þetta endaði mjög vel. Það fór betur en á horfðist, það er óhætt að segja það,“ segir Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík.

Leit illa út í upphafi

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík, björgunarsveitin Suðurnes í Reykjanesbæ og björgunarsveitin Skyggnir úr Vogum voru allar kallaðar út í gær auk sjúkraflutningamanna.

„Eðlilega var viðbragðið svolítið mikið í upphafi. Þegar það er mikil blæðing á höfði þá er ómögulegt að segja til um hvert það stefnir,“ segir Otti Rafn.

„Þannig að viðbúnaður var mjög mikill strax ef það hefði þurft að bera viðkomandi á börum. Það hefði verið meiri háttar mál,“ bætir hann við.

Menn voru ansi þreyttir eftir gönguna en gott veður gerði aðgerðina þægilegri. Konan bar sig mjög vel miðað við aðstæður að sögn Otta.

„Hún var algjör nagli,“ segir hann að lokum.

Betur fór en á horfðist í upphafi.
Betur fór en á horfðist í upphafi. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert