70 björgunarsveitarmenn kallaðir út

Björgunarsveitarmenn á ferðinni. Myndin er úr safni.
Björgunarsveitarmenn á ferðinni. Myndin er úr safni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Um sjötíu björgunarsveitarmenn hafa verið sendir af stað vegna neyðarboða sem bárust frá neyðarsendi norðan Torfajökuls í kvöld.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, eru fyrstu hóparnir sem fóru frá Hellu komnir á vettvang og byrjaðir að leita.

Snjókoma er á svæðinu og hvasst í veðri og aðstæður til björgunarstarfa því erfiðar.

Ekki er enn vitað hvaðan neyðarboðin bárust nákvæmlega.

Verið er að fara yfir ferðaáætlanir sem ferðafólk hefur skilið eftir, bæði í gegnum Safe Travel og hjá skálavörðum á hálendinu.

Davíð Már segir að slagveður hafi verið á hálendinu í allan dag og vatnavextir verið miklir. Því þurfi björgunarsveitarmenn að fara varlega.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert