Áverkar á hnúa Vals Lýðssonar

Sigurður Kári Kristjánsson réttargæslumaður og Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari í dómsal …
Sigurður Kári Kristjánsson réttargæslumaður og Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari í dómsal á Selfossi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Læknir sem var kallaður að Gýgjarhóli II til þess að staðfesta andlát Ragnars Lýðssonar, segir að Ragnar hafi verið látinn í að minnsta kosti sex klukkustundir áður en hann framkvæmdi skoðun sína kl. 11:13, 31. mars síðastliðinn.

Læknirinn, Andri Kristinsson, sagði jafnframt aðspurður fyrir Héraðsdómi Suðurlands í morgun, að ekkert benti til þess að lík Ragnars hefði verið hreyft að honum látnum, en líkið fannst í þvottahúsinu heima hjá ákærða, Val Lýðssyni.

Þórður Guðmundsson, læknir sem framkvæmdi réttarfræðilega skoðun á ákærða Val, sagðist hafa fundið tvær rispur á höfði hans og sömuleiðis mar á hnúa baugfingurs hægri handar og á handarbaki. Þá sagði hann Val hafa verið með dökka bletti á bæði hondum og iljum, sem voru storknað blóð.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari spurði Þórð hvort hann teldi áverkana á hendi Vals vera í líkingu við þá sem árásarmenn væru gjarnan með eftir að hafa veitt öðrum hnefahögg. Hann sagði að miðað við sína reynslu þá passaði það og að marið á hnúa Vals hefði komið eftir einhvers konar högg.

Aðalmeðferð yfir Val Lýðssyni hófst í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.
Aðalmeðferð yfir Val Lýðssyni hófst í Héraðsdómi Suðurlands í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verjandi Vals, Ólafur Björnsson, spurði Þórð að því hvort mögulegt væri að áverkarnir á hendi Vals gætu verið tilkomnir af því að Valur var handjárnaður þarna um morguninn.

„Mér finnst ólíklegt að þessi tiltekni áverki á hnúanum hefði komið til af handjárnum,“ sagði Þórður.

Viðbragðsaðilar sögðu Val rólegan og samvinnufúsan

Nú hefur verið gert matarhlé á þessum fyrsta degi aðalmeðferðar í málinu, en fyrir dóminn í morgun hafa komið Valur, bróðir hans Örn sem kaus að gefa ekki skýrslu, auk þriggja björgunarsveitarmanna úr Hrunamannahreppi sem mættu fyrst á vettvang að Gýgjarhóli II.

Þá komu einnig fyrir dóminn lögreglumennirnir tveir sem komu fyrstir á vettvang og handtóku Val, sem var lýst sem samvinnuþýðum og rólegum þarna um morguninn, sjáanlega ölvuðum en þó ekki mjög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert