Man ekki eftir neinum átökum

Valur Lýðsson (t.h.) ásamt verjanda sínum, Ólafi Björnssyni.
Valur Lýðsson (t.h.) ásamt verjanda sínum, Ólafi Björnssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir á að hyggja hefði maður átt að vera hættur að drekka fyrir löngu,“ segir Valur Lýðsson, sem sakaður er um að hafa orðið bróður sínum Ragnari Lýðssyni að bana aðfaranótt 31. mars sl. Hann gaf skýrslu við upphaf aðalmeðferðar málsins fyrir Héraðsdómi Suðurlands í morgun.

Valur segist ekkert muna til þess að átök hefðu átt sér stað á milli þeirra bræðranna, sem voru saman komnir á heimili Vals að Gýgjarhóli II í Biskupstungum. Bræður Vals, Ragnar og Örn, komu í heimsókn um klukkan hálfsjö og um sjöleytið borðuðu þeir saman og hófu þeir Valur og Ragnar þá strax að drekka vín, sem Valur segir Ragnar hafa komið með sér.

Valur segir að hann og Ragnar hafi drukkið „heilmikið“ og að Örn hafi verið með þeim, en hann er að sögn Vals vanur því að vera mjög hófsamur á vín og auk þess að jafna sig eftir heilablæðingu. Valur segir Örn hafa gengið til náða um klukkan tíu þetta kvöld, en hann og Ragnar hafi áfram setið við drykkju.

„Alltaf bætti Ragnar í glösin,“ sagði Valur, en þeir Ragnar voru að drekka vodka og Campari, lítraflösku af hvoru sem báðar kláruðust, að sögn Vals.

„Eitthvað vorum við nú að spjalla sem ég man ekki mikið af,“ sagði Valur, sem líkt og áður segir segist ekkert muna eftir því að átök hafi átt sér stað á milli þeirra.

Hann nefndi þó að Ragnar hefði brugðist illa við, er hann greindi honum frá áformum sem Valur hafði um bújörðina, en Valur átti sér draum um að færa bæjarstæðið.

Valur lýsti því hvernig hann myndi glefsur af „illilegu andliti“, sem hefði verið líkt Ragnari, en þó hefði honum á sama tíma þótt eins og andlitið væri ekki Ragnars.

Valur vaknaði að eigin sögn „léttur á lund og grandalaus“ morguninn eftir að Ragnar lést, en það breyttist eftir að hann fann bróður sinn látinn á gólfinu.

„Auðvitað flaug afgerandi að mér að stytta mér aldur þegar að þetta leit [út] fyrir að vera yfirgnæfandi líkur til að ég hefði átt þarna hlut að máli,“ sagði Valur, sem sagði ítrekað að hann myndi ekki til þess að nein átök hefðu átt sér stað á milli bræðranna.

„Mér er sagt að það sé þekkt í réttarsálfræðinni að mjög hrikalegar minningar geti þurrkast út,“ sagði Valur, spurður út í Neyðarlínusímtal sitt þarna um morguninn, þar sem hann veitti meiri upplýsingar um atburði en hann hefur síðan kallað fram í skýrslutökum hjá lögreglu.

mbl.is