Ölvunarástand skýri ofbeldið

Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar á Selfossi í morgun. Hann …
Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar á Selfossi í morgun. Hann segir sjálfur að hann hafi átt það til að drekka of mikið og verða ofbeldisfullur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómkvaddir sérfræðingar, sem lögðu mat á sakhæfi Vals Lýðssonar, sem ákærður er fyrir að hafa banað bróður sínum í mars síðastliðnum, ræddu um að Valur sýni engin merki um vitglöp eða annað sem útskýrt gæti minnisleysi hans um atburði þá sem áttu sér stað á heimili hans, annað en óminnisástand sökum ölvunar.

Í viðtölum Nönnu Briem geðlæknis við Val kom fram að hann hefði átt við áfengisvanda að stríða og sögu um óminni tengt áfengisdrykkju, áður fyrr. Þá sagðist Nanna hafa rætt við tvo vini Vals, sem sögðu að hann hefði átt það til að vera ofbeldisfullur undir áhrifum.

Brynjar Emilsson sálfræðingur sagði að í hans mati á sakborningnum hefði ekkert komið fram sem gæti skýrt minnisleysi hans umrætt kvöld. Hann bætti því við að Valur hefði mælst með „afburðagreind“, en einnig skimast á mörkum einhverfurófs. Báðir sérfræðingar voru sammála um að Valur væri sakhæfur.

Hafði sjálfur ákveðið að hætta að drekka

Valur hafði sjálfur tekið ákvörðun um að hætta að drekka í janúar síðastliðnum og hafði ekki drukkið fyrr en umrætt kvöld. Að sögn Nönnu fannst Val vera nóg komið af drykkju og full ástæða til að hætta að drekka, eins og sakborningurinn sjálfur lýsti er hann gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Suðurlands í morgun. Þá sagðist hann eiga það til að drekka of mikið og að hann hefði stundum orðið ofbeldisfullur undir áhrifum áfengis.

„Við drukkum mjög mikið og nokkuð sterkt,“ sagði Valur sjálfur fyrir dómi í morgun, en bræðurnir munu samkvæmt frásögn hans hafa drukkið lítraflöskur af bæði vodka og Campari og voru þeir einnig búnir að seilast í aðra Campari-flösku, sem Valur átti inni í skáp.

Nanna greindi frá því að í viðtölum sínum við sakborninginn hefði ítrekað komið fram að hann myndi ekki nema fyrri hluta kvöldsins og kannaðist Valur ekki við það á neinn hátt að hafa verið reiður út í bróður sinn. Nanna sagði hann sjá eftir því sem hefði gerst, en að hann gæti ekki gefið á því neinar skýringar.

Hennar faglega mat er að ofbeldið sem Valur er sakaður um að hafa beitt bróður sinn, megi skýra af ölvunarástandi hans.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari mætir í réttarsal á Selfossi í morgun. …
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari mætir í réttarsal á Selfossi í morgun. Aðalmeðferð málsins verður fram haldið að viku liðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagi hins látna kom fyrir dóminn

Vinur Ragnars Lýðssonar kom fyrir dóminn, en sá hafði móttekið símtal frá honum á milli klukkan 22:30 og 23:00, þetta síðasta kvöld sem Ragnar lifði. Vitnið lýsti því að það hefði legið létt á Ragnari, eins og alltaf þegar þeir töluðu saman og hann tjáð sér að hann væri á heimili Vals bróður síns.

Skilningur vitnisins var á þá leið að samband bræðranna hefði verið gott og sagðist hann hafa orðið þess áskynja að vel hefði farið á með þeim er símtalið átti sér stað.

Aðalmeðferð í málinu heldur áfram næsta mánudag, 3. september, en þá kemur Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur fyrir dóminn á Selfossi. 

mbl.is