Bólusetningar verði skilyrði fyrir inntöku

Hildur Björnsdóttir vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði fyrir …
Hildur Björnsdóttir vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði fyrir inntöku barna á leikskóla borgarinnar. mbl.is/Eggert

„Bæði sóttvarnarlæknir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa varað við útbreiðslu smitsjúkdóma, og sérstaklega mislinga, og núna finnst mér enn meira tilefni til að skoða þessa tillögu,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hún hyggst flytja tillögu fyrir borgarstjórn um að gera almennar bólusetningar að skilyrði við inntöku í leikskóla borgarinnar.

Hildur segir sambærilega tillögu hafa verið lagða fram á síðasta kjörtímabili, en að hún hafi verið felld af meirihlutanum. „Það eru fleiri farnir að taka þessu alvarlega og það er ástæða til að hugsa út í þetta.“

„Óbólusettum börnum fer fjölgandi, en það er ekki endilega vegna þess að foreldum sem ekki vilja bólusetja börnin sín fer fjölgandi, heldur er eins og skráningu og utanumhaldi með bólusetningum sé ábótavant. Þetta væri ein leið til þess að halda betur utan um þetta og tryggja að foreldrar passi upp á að börn hafi fengið allar bólusetningar.“

Ekki hlynnt boðum og bönnum

Almennt segist Hildur ekki hlynnt boðum og bönnum og lítur á sig sem frjálshyggjukonu. „En frelsinu fylgir alltaf sá fyrirvari að þú skaðir ekki aðra. Þetta er eins konar almannavarnamál.“

Fyrsti fundur borgarstjórnar eftir sumarfrí fer fram á þriðjudaginn eftir viku og hyggst Hildur flytja tillöguna þá. Hún á von á góðum undirtektum frá sínu flokksfólki en veit ekki hvernig meirihlutinn mun taka í tillöguna, í ljósi þess að hann felldi sambærilega tillögu á síðasta kjörtímabili.

„Það er kannski að einhverju leyti breytt landslag, með mislingana sérstaklega. Þeir eru að ná talsverðri útbreiðslu og tilfellum hefur fjölgað alveg svakalega á síðustu tveimur árum.“

Hildur hefur fengið jákvæð viðbrögð við Facebook-færslu sinni um málið, en einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort ekki væri vænlegra að taka málið upp á Alþingi. „Leikskólar eru reknir af sveitarfélögum og mér finnst ágætt að höfuðborgin fari fram með góðu fordæmi og setji þessar reglur fyrst. Svo væri auðvitað fínt ef fleiri myndu fylgja í kjölfarið.“

„Ég veit ekki hvort mér finnist rétt að setja einhverja bólusetningaskyldu. Hins vegar er hægt að gera það að skilyrði að börn sem ganga í leikskóla Reykjavíkurborgar og umgangast önnur börn á hverjum degi fái almennar bólusetningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert