Hefur aldrei vitað annað eins

Davíð Blessing og Trausti Már Falkvard Traustason.
Davíð Blessing og Trausti Már Falkvard Traustason. mbl.is/Hari

Þrír dyraverðir standa fyrir styrktartónleikum fyrir dyravörðinn sem hlaut mænuskaða þegar ráðist var á hann fyrir utan skemmtistaðinn Shooters aðfaranótt sunnudags. Einn þeirra segir hörkuna að aukast í miðbæ Reykjavíkur.

Tónleikarnir fara fram næstkomandi sunnudag og hefjast þeir klukkan 20 á skemmtistaðnum Paloma. Fjórir menn hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir að þeir réðust á tvo dyraverði fyrir utan Shooters. Annar meiddist lítið en samkvæmt bráðbirgðaniðurstöðum læknis hlaut hinn mænuskaða.

Aukin harka í miðbænum

„Það hefur verið að færast aukin harka í miðbæ Reykjavíkur undanfarin tvö ár,“ segir Trausti Már Falkvard Traustason en hann stendur fyrir tónleikunum ásamt Davíð Blessing og Jóni Pétri Vágseið. Þeir hafa allir starfað sem dyraverðir í tæp tíu ár.

Trausti segir að hingað komi fólk sem er vant meiri hörku en áður hafi sést hér. „Svona tilefnislausar árásir eins og um helgina hafa ekki sést áður. Ég hef aldrei vitað um annað eins,“ segir hann.

Ætla að stofna samtök dyravarða

Hingað til hafa ekki verið starfrækt sérstök samtök dyravarða en í ljósi atburða helgarinnar var boðað til fundar á sunnudag. „Þangað mættu margir af yfirdyravörðum bæjarins og eigendur dyravarðafyrirtækja. Við erum að vinna að því að stofna samtök og það munu verða breytingar í miðbæ Reykjavíkur varðandi öryggi dyravarða,“ segir Trausti. Boðað hefur verið til annars fundar næstkomandi sunnudag, þangað sem allir yfirdyraverðir borgarinnar eru boðaðir.

Hann bendir á að dyraverðir hafi ekkert til að verja sig ef til átaka kemur og að á ansi mörgum stöðum sé ekki nógu vel staðið að hlutunum. „Nýverið var hlutunum breytt á þann veg að allir dyraverðir eru skikkaðir til að fara á 16 klukkustunda námskeið. Þar er farið yfir lög og reglugerðir, skyndi- og brunahjálp og örstutt yfir sjálfsvörn. Þetta er eina þjálfunin sem dyraverðir þurfa í miðbænum.

Eigendur oft að spara sér skildinginn

Spurður hvort skjálfti sé meðal dyravarða eftir árásina neitar Trausti því en segir menn sorgmædda. „Menn óttast að svona árásir endurtaki sig. Það ríkir mikil sorg meðal okkar allra yfir ástandi vinar okkar,“ segir Trausti.

„Það hefur oft verið þannig að menn eru einir; einn mætir klukkan tíu og svo mætir næsti klukkan tólf. Eftir þetta atvik mun það breytast. Skemmtistaðaeigendur eru oft að spara sér skildinginn með því að vera með eins fáa dyraverða og mögulegt er.“

Hann segir að það sé algjörlega óásættanlegt að hafa til að mynda tvo dyraverði á skemmtistað þar sem eru 200 manns. „Það mun ekki líðast lengur. Þessi staður hefði auðveldlega getað verið með fjóra dyraverði og það hefði verið eðlilegt.

Trausti segir að allir dyraverðir komi saman til að takast á við þessi mál. „Við vitum að staðirnir geta ekki verið opnir án okkar og við erum ekki tilbúnir að starfa undir þannig kringumstæðum að okkar öryggi sé í hættu.“

Hægt er að styrkja þann sem varð fyrir árásinni fyrir utan Shooters:

Öruggt öryggi Rknr: 0101-26-017088 kt: 290592-2839.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert