Maðurinn fannst í nótt

Miklir vatnavextir voru á hálendinu.
Miklir vatnavextir voru á hálendinu. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Maður sem leitað var að á Fjallabaki í gærkvöldi og nótt fannst heill á húfi um tvöleytið í nótt.  Hann var einn á ferð og fannst innst í svonefndu Jökulgili sem gengur inn af Landmannalaugum í átt að Torfajökli. Hann hélt sig í tjaldi, samkvæmt frétt á vef RÚV.

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út vegna neyðarboða sem bárust frá neyðarsendi á Fjallabaki á níunda tímanum, nánar tiltekið frá svæðinu norðan Torfajökuls. 

Frá leitinni í gærkvöldi.
Frá leitinni í gærkvöldi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Í gildi var gul viðvörun frá Veðurstofunni á miðhálendinu, slagveður og miklir vatnavextir. Fyrir innan Landmannalaugar voru 15-20 metrar á sekúndu í nótt, slydda og fjöll farin að hvítna, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Uppfært klukkan 7:38

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjörg, segir að um 190 björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í leitinni og voru síðustu hóparnir að koma til síns heima um sex í morgun. Maðurinn hafði haldið sig í tjaldi sínu enda veðrið mjög slæmt á þessum slóðum í gær. Ástand hans var gott og gekk hann á móti björgunarsveitarfólkinu þegar það kom honum til bjargar og kom honum til byggða.

Að sögn Davíðs rigndi mjög mikið á hálendinu í gær og óx mjög í öllum ám. En þegar veðrið fór að skána um miðnætti sjatnaði hratt í ám. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert