Alvarlegt mál sem er í forgangi

mbl/Arnþór

„Þetta mál er í forgangi,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. Lög­regl­unni á bár­ust tvær til­kynn­ing­ar um að veist hefði verið að stúlk­um í Garðabæ milli klukk­an 16.00 og 18.00 í gær. 

Ráðist var á stúlku á fimmtudag á svipuðum stað og veist var að stúlkunum í gær, á göngu­stíg við Arn­ar­nes­mýri, meðfram Gullakri og Góðakri.

Fyrir um tveimur vikum var ráðist á átta ára stúlku sem var á gangi með hund og einnig var ráðist á tíu ára stúlku í des­em­ber í fyrra þar sem hún var á gangi. Var hún tek­in hálstaki, gripið um munn henn­ar og hún dreg­in í burtu.

Stúlkurnar sem ráðist var á í gær gátu lýst árásarmanninum og voru lýsingar þeirra áþekkar lýsingum hinna stúlknanna. Margeir segir að málið sé rannsakað þannig að mögulega sé sami maður að verki í öll skiptin.

„Við reynum að finna út hver gæti verið á ferð þarna og vinnum eftir gögnum og ábendingum sem við höfum,“ segir Margeir og bætir við að lögregla líti málið alvarlegum augum.

mbl.is