Leyfilegt að úða kornið með glýfosati

Heimilt er að úða korn með glýfosati hér á landi, …
Heimilt er að úða korn með glýfosati hér á landi, allt að 10 dögum fyrir uppskeru. Mynd af kornakri í Indiana í Bandaríkjunum. AFP

Heimilt er að úða korn með glýfosati hér á landi, allt að 10 dögum fyrir uppskeru. Þetta kemur fram í svörum Matvælastofnunar (MAST) við fyrirspurn mbl.is.

Glýfosat er virka efnið í plöntueyðinum Roundup og er einnig að finna í plöntueyðum sem seldir eru undir öðrum nöfnum, eins og Ameda, Clinic og Keeper. Stutt er síðan dómstóll í Kaliforníu úrskurðaði að Monsanto, framleiðandi Roundup skyldi greiða manni sem samsvarar um 30 milljörðum króna í skaðabætur af því að efni í vörunni gæti valdið krabbameini.

Að sögn MAST má nota Roundup, Ameda, Clinic og Keeper í atvinnuskyni til eyðingar á breiðblaða illgresi í kornrækt, sem og á húsapunti og grastegundum. Það er Umhverfisstofnun sem veitir markaðsleyfi fyrir plöntueyðunum, en stofnunin fer með eftirlit með innflutningi, dreifingu og markaðssetningu plöntuverndarvara. Í maí 2018 voru 10 vörur með tímabundið markaðsleyfi.

Fundu ekkert glýsfosat í íslenska korninu

Ekki kemur fram í svörum MAST hvort stofnuninni sé kunnugt um að glýfosati sé úðað yfir kornakra hér á landi þó að heimild sé til þess, né heldur hvort það sé gert skömmu fyrir uppskerutíma.  

Ingibjörg Jónsdóttir, fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá MAST, segir stofnunina hafa tekið þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfosati árið 2016 og greindist þá ekkert glýfosat í vörunum. 

„Nú fer að líða að kornuppskeru og Matvælastofnun mun taka sýni af innlendu korni til greininga á aðskotaefnum. Glýfosat verður mælt í hluta sýnanna,“ segir í skriflegum svörum Ingibjargar.

Mbl.is barst ábending um að korn, sem úðað hefði verið með glýfosati, hefði verið notað í kjúklingafóður hér á landi. Spurð hvort MAST viti til að þetta hafi verið gert, segir Ingibjörg nær eingöngu innflutt fóður, eða fóður unnið úr innfluttum hráefnum, vera notað í kjúklingaeldi hér og það sé gert undir eftirliti MAST.

„Tekin eru sýni af kjúklingafóðri til greininga á þungmálmum, hníslalyfjum og öðrum óæskilegum efnum,“ segir hún. Samkvæmt ársskýrslu MAST fyrir 2016 voru flutt inn 8.332 tonn af fóðri fyrir alifugla það ár, en heildarinnflutningur fóðurs nam 133.562 tonnum. Það ár mældist  glýfosat í hreinum fóðurefnum í þremur tilfellum, en í engu tilfelli í fóðurblöndum.

Erfitt að mæla glýfosat í matvælum

Spurð hvort MAST rannsaki glýfosat í matvælum, segir hún svo ekki vera.

Erfitt sé að mæla glýfosat og engin íslensk rannsóknastofa geti framkvæmt mælinguna. „Hins vegar höfum við góðar upplýsingar úr skýrslu EFSA [Matvælaöryggisstofnunar Evrópu],“ segir Ingibjörg.

Samkvæmt nýjustu niðurstöðum, sem eru frá árinu 2016 og voru gefnar út í júlí á þessu ári, greindist glýfosat yfir leyfilegum mörkum í 0,28% þeirra 7.000 sýna sem tekin voru frá 26 löndum. Ekkert glýfosat greindist hins vegar í 96,4% sýnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert