Brotist inn í þrjú hús á Raufarhöfn

Brotist hefur verið inn í að minnsta kosti þrjú hús …
Brotist hefur verið inn í að minnsta kosti þrjú hús á Raufarhöfn að undanförnu. mbl.is/Sigurður Bogi

Brotist hefur verið inn í þrjú einbýlishús á Raufarhöfn, sem lögreglan á Húsavík veit af, á undanförnum dögum.

Aðallega var stolið skartgripum en Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík, hefur ekki upplýsingar um virði þeirra. Líklegt er að innbrotin hafi átt sér stað á miðvikudaginn.

Töluvert hefur verið um innbrot víðs vegar um landið í sumar, þar á meðal á Eskifirði og í Neskaupstað. 

Sams konar mál á Húsavík og í Mývatnssveit eru einnig til skoðunar hjá lögreglunni. Þaðan hefur verið stolið miklum fjármunum, annars vegar upp á hundruð þúsunda króna og hins vegar fyrir um eitt hundrað þúsund, að sögn Hreiðars.

„Okkur þykir ósennilegt ef við höfum séð allt sem er í gangi. Við hljótum að vera að sjá bara toppinn á einhverjum ísjaka,“ segir Hreiðar um innbrotafaraldurinn.

Hann nefnir að einnig séu mál sem komu upp á Vesturlandi í gær og í dag til skoðunar hjá lögreglunni.

Ljósmynd/Lögreglan

Stela úr svefnherbergisskápum

Hreiðar segir oft ekki vera nein merki um innbrot á heimilum fólks, sem oft tekur ekki eftir því fyrr en nokkrum dögum síðar að hlutum hafi verið stolið. Helst stela menn peningum, þar á meðal erlendum gjaldeyri, og skartgripum. Annað er látið í friði.

„Það virðist vera mjög algengt að þessir aðilar fara í stofuskápa og svefnherbergisskápa. Það virðist vera eins og margir geymi persónulega hluti í svefnherbergisskápum,“ segir hann og bendir jafnframt á að mennirnir hafi sums staðar verið staðnir að verki.

„Fólk vísar þessum mönnum bara út og þar með er málið bara gufað upp.“

Einnig hefur verið brotist inn í hús á Húsavík.
Einnig hefur verið brotist inn í hús á Húsavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Ætla að klófesta mennina

Hreiðar vill brýna fyrir landsmönnum að taka höndum saman og stöðva þá sem standa að baki innbrotunum. „Þetta eru ekki einhverjir tveir aðilar, þetta eru grúppur úti um allt land. Við verðum að taka höndum saman og kveikja á perunni og ná einhverjum úr þessum hópi.“

Hann tekur fram að lögreglan á öllu landinu vinni hörðum höndum við að hafa uppi á þjófunum. Hann segir þá oft vera í útivistarfötum og líta því út fyrir að vera túrista.

„Við verðum að fá almenning með okkur til að hringja, þannig að við getum elt svona menn uppi á staðnum og klófest þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert