Drengurinn er undir sakhæfisaldri

Lögregla segir að rannsókn málsins miði vel, en að hún …
Lögregla segir að rannsókn málsins miði vel, en að hún muni taka tíma. mbl.is/Eggert

Drengurinn, sem gaf sig fram við lögreglu, er sá sem lýst var eftir í fjölmiðlum vegna rannsóknar lögreglu á árásum á stúlkur í Garðabæ.

Um er að ræða barn sem hefur ekki náð sakhæfisaldri, 15 árum. Því er málið unnið í nánu samstarfi við Barnavernd Garðabæjar og bæjaryfirvöld, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.

Rannsókn málsins miðar vel en ljóst er að hún muni taka tíma, segir í tilkynningu lögreglu. Lögreglan vill þakka alla þá aðstoð sem henni hefur borist og þeim sem hafa veitt upplýsingar vegna málsins.

Telja sig vera á réttri leið

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, segir við mbl.is að lögregla telji sig vera á réttri leið með rannsókn málsins.

Ekki er þó ljóst hvort drengurinn sem gaf sig fram við lögreglu sé tengdur öllum málunum fimm sem lögregla hefur rannsakað í Garðabæ.

Drengurinn er undir sakhæfisaldri, 14 ára gamall, og segir Karl að lögregla hafi þurft að byrja að nálgast málið með eilítið öðruvísi hætti eftir að í ljós kom hve ungur hann er.

Fimm árásir, þar af fjórar í ágúst

Fimm árásir á ungar stúlkur í Garðabæ hafa verið tilkynntar til lögreglu, ein í desember síðastliðnum og síðan fjórar núna í ágústmánuði.

Í umfjöllun mbl.is um fyrstu árásina, sem átti sér stað í desember, kom fram að þá hefði verið talið að árásarmaðurinn væri á aldrinum 17-19 ára gamall. Hann greip í tíu ára gamla stúlku, hélt fyrir munn hennar og reyndi að draga hana afsíðis, er hún var á gangi við Löngumýri ásamt tveimur vinkonum sínum.

Fyrir um tveimur vikum var ráðist á átta ára stúlku þar sem hún var á göngu með hund sinn í bænum og hún slegin.

Síðasta fimmtudag, 23. ágúst, var svo tilkynnt um árás á barnunga stúlku á svipuðum slóðum, eða á göngu­stíg­um neðan við og meðfram Gullakri og Góðakri.

Það var síðan á þriðjudag sem veist var að tveimur stúlkum til viðbótar, í tveimur ótengdum atvikum.

Þær árásir áttu sér stað á svipuðum slóðum, á göngustíg við Arnarnesmýri. Veist var að stúlkunum með einhverjum hætti á milli kl. 16 og 18 á þriðjudag og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gátu þær lýst árásarmanninum. Lýs­ing­ar þeirra voru áþekk­ar lýs­ing­um hinna stúlkn­anna, sem áður hafði verið ráðist á nú í ágústmánuði.

Sambærilegar atburðarásir

At­b­urðarás­in í árásunum á þriðjudag var sam­bæri­leg þeirri á fimmtu­dag­inn fyrir sléttri viku, að sögn Mar­geirs Sveins­sonar, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóns hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði hann að rannsókn lögreglu hefði ekki gengið út frá því að þarna væri um einn og sama árásarmanninn að ræða í öllum tilvikum. Það væri hins vegar einn möguleikanna.

mbl.is