Flokkurinn hafni orkupakkanum

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmenni var á opnum fundi sem hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur boðuðu til í kvöld í aðalsal Valhallar, höfuðstöðva flokksins.

Miklar umræður urðu á fundinum um fyrirhugaða samþykkt á þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Borin var upp ályktun á fundinum þar sem skorað var á forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykkja ekki orkupakkann þegar hann kæmi til afgreiðslu á Alþingi og var hún samþykkt mótatkvæðalaust, en ályktunin er svohljóðandi:

„Fundurinn skorar eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“

Einnig var rifjað upp á fundinum ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því fyrr á þessu ári þar sem hafnað var því að frekara vald vald yfir íslenskum orkumálum yrði fært í hendur stofnunum Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert