Jón Kalman fær ekki Nóbelinn

Jón Kalman er einn þeirra höfunda sem komust ekki á …
Jón Kalman er einn þeirra höfunda sem komust ekki á stutta lista Nýju Nóbelsverðlaunanna. Einar Falur Ingólfsson

Listinn styttist fyrir „Nýju Nóbelsverðlaunin“. Jón Kalman er dottinn út. Fjórir eru í úrslitum: Maryse Condé, Neil Gaiman, Haruki Murakami og Kim Thúy.

„Nýi Nóbelinn“ var stofnaður af blaðamönnum, gagnrýnendum og ýmsum unnendum bókmennta, til að fylla í skarðið sem sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum skilja eftir sig. 

Athygli vakti á Íslandi þegar Jón Kalman Stefánsson var tilnefndur á langa lista verðlaunanna. Fleiri nafntogaðir rithöfundar detta út af listanum við birtingu stutta listans. J.K. Rowling, Elena Ferrante, Sofi Oksanen og Margaret Atwood voru meðal rithöfunda á langa listanum.

Tveir karlar og tvær konur í úrslitum

Neil Gaiman er mörgum Íslendingum nokkuð kunnur en síðast kom út í íslenskri þýðingu bók hans um norræna goðafræði, Norrænar goðsagnir. Þá er Murakami nokkuð þekktur meðal Íslendinga þó að fáar bækur hans hafi verið þýddar á íslensku.

Svo er það Maryse Condé, frá Guadeloupe, sem hefur ekki verið þýdd á íslensku en er sögð „einn mest áberandi karabíski höfundurinn“. Að lokum er það hin víetnamska Kim Thúy, sem er heldur ekki til í íslenskri þýðingu. Hún er sögð þekkt fyrir „fágaðar sögur um reynslu innflytjenda og flóttamanna.“

Úrslit ráðast 13. október 

Úrslitin eru ráðin þannig að atkvæði bókasafnsvarða í Svíþjóð verða talin og mið tekið af þeim en á endanum ákveður dómnefnd Nýju Nóbelsverðlaunanna hver hreppir þau. Það verður 13. október.

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum verða ekki veitt af sjálfri Nóbelsnefndinni í ár, vegna ósættis innan akademíunnar í tengslum við MeToo-byltinguna.

Árið 2019 er hins vegar talið að hin upprunalega Nóbelsnefnd komi til með að gefa tvenn verðlaun: fyrir það ár og 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert