Makríllinn flyst frá Íslandi til Noregs

Makríll steypist niður í lest.
Makríll steypist niður í lest. mbl.is/Árni Sæberg

Vísitala lífmassa makríls hefur lækkað um 40% ef miðað er við sama tíma í fyrra. Kemur þetta fram í samantekt úr uppsjávarleiðangri er farinn var í sumar. Markmið hans var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Mældist þéttleiki mestur í Noregshafi en mun minna mældist á hafsvæðinu við Ísland en hefur verið undanfarin ár.

Að sögn Önnu Heiðu Ólafsdóttur, sérfræðings í uppsjávarfiskum á Hafrannsóknastofnun, komu niðurstöðurnar á óvart, þar sem ekkert benti til slíkrar þróunar í leiðangrinum sem farinn var í fyrra. Í skýrslu um niðurstöður leiðangursins kemur fram að auk þess sem vísitala lífmassa makrílsins hafi mælst 40% lægri sé heldur minni lækkun í vísitölu fjölda fiska. Anna Heiða segir að munurinn skýrist af fækkun í öllum eldri árgöngum makríls. Þá sé minnkunin í Noregshafi mun minni en við Ísland og Grænland, þar sem makríllinn halli sér nú í átt að Noregi í stað þess að dreifast yfir stærra svæði.

Spurð hvað útskýri hreyfingarnar segir Anna Heiða að þær megi að hluta til skrifa á umhverfisaðstæður, t.a.m. þurfi að horfa til þess að óvenjukalt hafi verið vestan við Ísland í sumar. Hins vegar þurfi meiri tíma til að greina ástæðurnar.

Einnig mælist magn norsk-íslenskrar síldar minna en á síðasta ári, en þar lækkaði vísitalan um 24% milli ára. Vísitala kolmunna sem er ársgamall og eldri var 11% lægri, að því er fram kemur í umfjöllun um niðurstöður leiðangursins í Morgunblaðinun í dag.

Niðurstöður leiðangursins eru hluti af yfirstandandi vinnu við mat á stofnstærð makríls og mun Alþjóðahafrannsóknarráðið birta ráðgjöf um aflamark síldar, makríls og kolmunna 28. september, en þá er einnig von á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar við Ísland.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert