Nemum verða greidd laun

Fjöldi fólks studdi ljósmæður í kjaradeildu þeirra í sumar.
Fjöldi fólks studdi ljósmæður í kjaradeildu þeirra í sumar. mbl.is/Hari

Meta á kandídatsgráðu ljósmæðra til jafns við nám hjúkrunarfræðings með tveggja ára sérnám. Auk þess á að greiða ljósmóðurnemum laun. Þetta kemur fram í úrskurði gerðardóms í ljósmæðradeilunni.

Úrskurðurinn er kynntur á vefsíðu ríkissáttasemjara. Þar segir að viðfangsefni dómsins séu eins og segi í miðlunartillögu sáttasemjara frá 21. júlí; að leggja mat á hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra og hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir eiga að hafa frekari áhrif á launasetningu hópsins en orðið er.“

Fram kemur að ljósmóðir í klínísku starfi skuli raðast tveimur launaflokkum ofar en hjúkrunarfræðingur sem ekki er með sérmenntun. Menntunarákvæðið skal formfesta í stofnanasamningi hjá öllum stofnunum sem ljósmæður starfa á fyrir 1. október.

Ljósmóðurnema á síðasta ári verða samkvæmt úrskurðinum greidd laun fyrir 25 vikur. Greiðslum skal skipt samkvæmt gildandi námskrá um klíníska starfsþjálfun.

Gerðardómurinn hefur ekkert staðfast sem gefur honum tilefni til að úrskurða um að kjörum ljósmæðra skuli breytt vegna aukinnar ábyrgðar og breytts inntaks starfs. 

Fram kemur að huga þurfi að breytingum á fjölda virkra vinnustunda ljósmæðra og annarra heilbrigðisstétta í vaktavinnu einkum þar sem vaktabyrði er mikil og krafist er nákvæmra vinnubragða og viðbragðsflýtis. Dómurinn hvetur samningsaðila til að kanna það betur fyrir næstu samningalotu og leggja fram tillögur þess efnis að vinnustundum starfsstétta í vaktavinnu verði fækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert