Skilur ekkert í óhugnaðinum

Félagasamtökin Villikettir vinna að því að bæta líf villi- og …
Félagasamtökin Villikettir vinna að því að bæta líf villi- og útigangskatta á Íslandi á sama tíma og spornað er við fjölgun þeirra. mbl.is/Golli

„Þetta er óhugnanlegt. Maður skilur ekki alveg hvernig einhver getur gert þetta,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður samtakanna Villikettir, um kött sem fannst í Hellisgerði í Hafnarfirði í gærkvöldi sem hafði verið pyntaður.

„Það þarf að ná þessum einstaklingi. Hann er greinilega mjög veikur.“

Farið var með köttinn á Dýraspítalann í Garðabæ þar sem hlúð var að honum. Að sögn starfsmanns spítalans hefur ekki tekist að hafa uppi á eiganda hans.

Arndís bendir á að eitrað hafi verið fyrir köttum í Hellisgerði fyrir um tveimur árum og hefur hún vitaskuld áhyggjur af málinu.

Köttur í Kattholti.
Köttur í Kattholti. Ljósmynd/Þórður Arnar Þórðarson

Hún nefnir einnig álíka mál sem kom upp í Hveragerði fyrr á árinu þegar kettir voru pyntaðir og segir Villiketti komna í samstarf við dýravini þar í bæ sem sinna núna eins konar nágrannavörslu til að fylgjast með grunsamlegu atferli tengdu köttum. Hveragerðisbær hefur einnig lagt sitt af mörkum.

„Ef þeir sjá eitthvað skrítið bæði í görðum og annars staðar, til dæmis mat sem er á óvenjulegum stað, er það tekið og skoðað,“ segir Arndís Björg um nágrannavörsluna.

„Það eru allir á tánum þar, bæði íbúar og bæjarstjórnin.“

Spurð út í fjölda villikatta í Hafnarfirði segir hún að þeir séu líklega á þriðja hundrað, en séu um það bil tvö til þrjú þúsund á landsvísu, en nefnir að búið sé að gelda mikið af þeim undanfarin ár. Á sama tíma eru þeir merktir á eyrunum til að hægt sé að fylgjast betur með þeim. Jafnframt er reynt að koma einhverjum köttum á fósturheimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert