Auknar forvarnir gegn kynferðisofbeldi

Rannveig Sigurvinsdóttir á ráðstefnunni í morgun.
Rannveig Sigurvinsdóttir á ráðstefnunni í morgun. mbl.is/Arnþór

Framkvæmdastjóri samtakanna Blátt áfram segir að efla þurfi forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi á börnum. Auka þarf fjárveitingar til forvarna, bæta kennslu um málefnið í námi leik- og grunnskólakennara og efla fræðslu um kynheilbrigði barna. Bera þarf kennsl á einkennin og grípa inni í miklu fyrr.

„Við vitum að það er hægt að gera betur í þessum efnum,“ sagði Sigríður Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Blátt áfram, á ráðstefnu um málefnið á Hótel Natura í morgun.

Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri var fundarstjóri. 

Tillögur Blátt áfram varðandi langtímasamstarf við stjórnvöld er að hleypt verði af stokkunum langtímaáætlun um forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum fyrir alla sem hafa menntun og leyfi til að vinna með börnum.

Þrjú stig forvarna

Forvarnir eru flokkaðar í þrjú stig. Það fyrsta er að sporna við erfiðum upplifunum í æsku, koma í veg fyrir ofbeldið áður en það gerist og fræða fullorðna.

Annars stigs forvörn snýst um að fólk átti sig á umfangi vandans og tíðni ofbeldis, fræðslu til barna og unglinga, fræðslu um sjálfsmynd og áfengis og -vímuefnavörn.  

Þriðja stigið felst í að hjálpa einstaklingum sem hafa orðið fyrir erfiðum upplifunum í æsku, aðstoða aðstandendur fyrr, aðstoða þolendur, gerendur, stofnanir og starfsfólk sem starfar með börnum.

Bergur Þór Ingólfsson var fundarstjóri.
Bergur Þór Ingólfsson var fundarstjóri. mbl.is/Arnþór

Nýtt, íslenskt fræðsluefni 

Sigríður kynnti í fyrirlestri sínum stolt til sögunnar nýtt íslensk fræðsluefni en Blátt áfram hefur frá árinu 2006 notast við erlent fræðsluefni. Um er að ræða myndband þar sem rætt er við ýmsa sérfræðinga þegar kemur að kynferðisofbeldi gegn börnum. Einnig benti hún á námskeiðið Verndarar barna sem er hægt að skrá sig í á vefsíðu Blátt áfram.

Í máli hennar kom fram að þrisvar sinnum líklegra er að börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi telji framtíð sína vera vonlausa og tvisvar sinnum líklegra er að börn meti andlega heilsu sína slæma, samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið. 70 til 80% þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Konur upplifa frekar þunglyndi og kvíða en einnig óútskýrð líkamleg einkenni og félagslega einangrun. Karlar eru meðal annars líklegri til að upplifa reiði.

Oft er langur vegur á milli þess er ofbeldið hefst og þegar barnið segir frá. Jafnframt líður oft langur tími frá því að einstaklingur sýnir óæskilega hegðun og þangað til hann er stoppaður af.

Hægt að eignast gott líf

Sigríður greindi frá því í lok fyrirlestrar síns að hún hefði sjálf verið beitt kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 4 til 11 ára af stjúpföður sínum. Hún benti á að börn reyndu að segja frá 7 til 11 sinnum áður en þeim væri trúað. „Það er hægt að eignast gott líf með hjálp og stuðningi annarra,“ sagði hún.

Fundargestir á ráðstefnunni Blátt áfram á Hótel Natura.
Fundargestir á ráðstefnunni Blátt áfram á Hótel Natura. mbl.is/Arnþór

Stúlkur í tvisvar til þrisvar sinnum meiri hættu

Dr. Rannveig Sigurvinsdóttir, aðjunkt við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, steig næst í pontu. Hún sagði mikilvægt að gera forvarnarstarf markvissara.

Hún sagði mikilvægan forvarnarþátt í nærumhverfinu vera tengsl fjölskyldu og einstaklinga við hefðbundnar stofnanir samfélagsins, aðgengi að menntakerfi, örugga barnagæslu og stuðningsríka foreldra. Hvað einstaklingsþætti varðar eru stúlkur í tvisvar til þrisvar sinnum meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en drengir.

Í rannsókn sem Rannsóknir og greining gerði árið 2013 upp úr samtölum við 16 og 17 ára framhaldsskólanema kom fram að fleiri stelpur höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi en strákar og að bilið á milli þeirra hefði aukist við unglingsaldur. Fram kom að menntun móður og foreldra skiptir máli til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi og að það gæti gert börn berskjaldaðri ef foreldrarnir væru ekki fjárhagslega vel stæðir.

Hærri tíðni kynferðisofbeldis var á meðal þeirra unglinga sem áttu erfitt með að fá hlýju frá foreldrum sínum. Einnig er mikilvægt að foreldrar séu vel tengdir inn í líf barnanna sinna og fylgist vel með. Börnum sem líður illa í skóla, skrópa og brjóta reglur skólans eru einnig líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert