Ógn og öryggi í næturlífi Reykjavíkur var meðal þess sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við þrjá dyraverði, Trausta Má Falkward, Jón Pétur Vágseið og Davið Blessing, á fundi á Bessastöðum í gær.
Félagi dyravarðanna liggur alvarlega slasaður á spítala en hann hlaut mænuskaða þegar ráðist var á hann fyrir utan skemmtistaðinn Shooters aðfaranótt sunnudags.
Í tilkynningu frá embætti forseta Íslands segir að forsetinn hafi rætt um leiðir til úrbóta, meðal annars með hliðsjón af stöðu mála í öðrum löndum.
„Það hefur verið að færast aukin harka í miðbæ Reykjavíkur undanfarin tvö ár,“ sagði Trausti Már í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.
Félagarnir standa fyrir styrktartónleikum fyrir dyravörðinn. Tónleikarnir fara fram næstkomandi sunnudag og hefjast þeir klukkan 20 á skemmtistaðnum Paloma.
Fjórir menn hafa verið handteknir í tengslum við árásina og voru þeir úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. Lögregla segir að rannsókn málsins miði vel.