Gerðardómur varpi ábyrgð á aðra

Ljósmæðrafélagið segir óhætt að fullyrða að sú launaleiðrétting sem ljósmæður …
Ljósmæðrafélagið segir óhætt að fullyrða að sú launaleiðrétting sem ljósmæður fengu árið 2008 sé orðin að engu. mbl.is/​Hari

Ljósmæðrafélag Íslands segir vel koma fram í greinargerð gerðardóms að laun ljósmæðra hafi dregist aftur úr miðað við laun annarra hópa undanfarinn áratug. Samt sem áður sé niðurstaða dómsins vonbrigði og feli ekki í sér nýtt mat á verðmæti starfs ljósmæðra eins og væntingar voru um.

Í yfirlýsingu frá LMFÍ segir að ljósmæður séu fagfólk sem á það sameiginlegt með læknum og tannlænum að sinna sjálfstæðri greiningu og meðferð og bera mikla faglega ábyrgð, auk þess sem tímalengd náms sé sambærileg.

Ljósmæðrafélagið segir óhætt að fullyrða að sú launaleiðrétting sem ljósmæður fengu árið 2008 sé orðin að engu, og að í nýundirrituðum kjarasamning sé þeim tryggð ákveðin grunnlaunahækkun en að talsvert vanti upp á. Félagið harmar að gerðardómur hafi ekki lagt sitt af mörkum til að leiðrétta stöðuna.

„LMFÍ átti von á afdráttarlausri niðurstöðu sem væri til þess fallin að skera úr um ágreining milli ljósmæðra og ríkisins hvað varðar verðmæti starfsins og kjaramál stéttarinnar. Í stað þess felur samantekt gerðardóms í sér ýmsar tillögur og ábendingar um atriði eins og vinnutíma, starfsþróun og þátttöku í tilraunaverkefnum. LMFÍ bendir á að þessi atriði hafi verið til umræðu á samningstímanum án árangurs.“

„Þá telur LMFÍ að gerðardómur sé að varpa ábyrgð sinni yfir á aðra þegar hann bendir á að líklegt sé að jafnlaunavottun og starfsmat komi til með að formfesta kröfur sem gerðar eru til ljósmæðra.“

Ljósmæðrafélagið fagnar því að ljósmóðurnemar fái nú greitt fyrir starfsnám, en segir það ekki geta talist kjarabót fyrir starfandi ljósmæður. Þá bendir félagið á að ljósmóðurnemar séu ekki félagsmenn LMFÍ og að af þeim sökum sé það nokkuð furðulegt að gerðardómur hafi tekið til þess afstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert