„Punglaus“ afstaða dómsins

Ljósmæður eru óánægðar með úrskurð gerðardóms.
Ljósmæður eru óánægðar með úrskurð gerðardóms. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ofboðsleg reiði og óánægja,“ segir Katrín Sif Sig­ur­geirs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar ljós­mæðra, eftir félagsfund ljósmæðra nú síðdegis þar sem úrskurður gerðardóms í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið var kynntur.

Konur trúðu eiginlega ekki öðru en að við myndum fá sanngjörn málalok eftir allt sem á undan hafði gengið. Þetta kom konum mjög á óvart,“ segir Katrín, en eins og kom fram í gær eru ljósmæður gríðarlega óánægðar með að ekkert sé minnst á leiðréttingu á launasetningu þeirra í úrskurði gerðadóms.

Þurfa eitthvað meira en hrós

„Við þurfum að fá eitthvað áþreifanlegt til að lifa af, ekki bara klapp á bakið og hrós um að við stöndum okkur voða vel og eigum allt gott skilið.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir. mbl.is/​Hari

Katrín segir að miklar umræður hafi skapast um að gerðardómur hafi úrskurðað að nemalaun skyldu tekin inn. Hún segir að þau hefðu alltaf átt að vera til staðar og það hefði átt að leiðrétta á öðrum vettvangi. „Það á ekki að setja það fram eins og eitthvert sigurmál í kjaradeilu.“

Ekki tekið tillit til krafna ljósmæðra

Katrín segir það „siðlaust“ af hálfu gerðardóms að nota árið 2008 sem upphafspunkt, en þá fengu ljósmæður ákveðna leiðréttingu. Sú leiðrétting hefur, að sögn Katrínar, öll étist upp. „Það er alltaf verið að miða við þann upphafspunkt og þannig erum við látnar elta skottið á okkur sjálfum í stað þess að taka tillit til þeirra krafna sem við lögðum fram um að störf okkar, menntun og ábyrgð yrðu verðlögð á við samanburðarhæf störf.

Þung orð voru látin falla á fundinum, en til að mynda veltu ljósmæður því fyrir sér hvort gerðadómur hafi verið hlutlaus í störfum sínum. „Konur notuðu ýmis lýsingarorð en meðal annars var talað um óánægju með punglausa afstöðu dómsins,“ segir Katrín.

Fjöldi fólks sýndi ljósmæðrum samstöðu í kjaradeilunni í sumar.
Fjöldi fólks sýndi ljósmæðrum samstöðu í kjaradeilunni í sumar. mbl.is/Eggert

Fleiri gætu sagt upp störfum

Áður hafði verið greint frá því að þær ljósmæður sem ekki höfðu dregið uppsagnir sínar til baka ætluðu að bíða eftir úrskurði gerðardóms og sjá svo til með framhaldið. Katrín er ekki bjartsýn á að þær snúi til baka:

„Ég heyrði í tveimur í dag sem eru ævareiðar og standa fast á því að þetta verði ekki til þess að þær dragi uppsögn sína til baka,“ segir Katrín og bætir við að henni kæmi ekki á óvart þótt fleiri uppsagnir fylgdu í kjölfarið.

„Það er gríðarlega stór ákvörðun að segja upp starfinu sínu og snúa sér að einhverju öðru en því sem maður menntaði sig til. Við sjáum að núna er mikill fjöldi ljósmæðra að snúa sér að hjúkrunarstörfum og flytja af landi brott.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert