Með æðruleysið að vopni

Gunnhildur Yrsa verður í eldlínunni þegar íslenska landsliðið mætir Þýskalandi …
Gunnhildur Yrsa verður í eldlínunni þegar íslenska landsliðið mætir Þýskalandi á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Hari

Eftir á að hyggja hefur hún ekki hugmynd um hvernig þetta gerðist. Og þó.

Liðsfélagar hennar voru með boltann ofarlega á hægri kanti en andstæðingarnir, sem voru á heimavelli, lokuðu vel. Diana Matheson var króuð af en blekkti varnarmann og kom boltanum á hvítklæddan samherja sem hafði þó ekki mikið rými til að athafna sig. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fylgdist með, innarlega af vellinum og íhugaði að fara og hjálpa. Nei, hugsaði hún. Hana langaði að vera inni í teig.

Boltinn fór áfram á Desiree Scott sem dró vörnina lengra út í kant áður en hún sendi hann aftur til Matheson. Þegar Gunnhildur sá Matheson, herbergisfélaga sinn, taka snertingu framhjá varnarmanninum vissi hún að hennar tími væri komin. Sendingin sveif yfir varnarlínuna. Gunnhildur hljóp til og renndi fimlega í boltann sem sveif framhjá markverðinum og small í netinu.

Hún hafði aldrei vitað jafn mikla þögn. Var hún rangstæð?

Gunnhildur fagnaði ekki þegar hún stóð upp úr grasinu heldur leitaði eftir viðbrögðum. Fjólublár aðdáendaskarinn stóð stjarfur – enginn hafði búist við marki á fyrstu þremur mínútunum – en þarna á móti henni komu samherjar hennar hlaupandi með uppréttar hendur. Í stúkunni fjærst markinu fögnuðu einu Íslendingarnir á svæðinu gríðarlega. Heimamenn brugðust illa við en Ýr Sigurðardóttir var ekki á þeim buxunum að láta leiðindin yfir sig ganga.

„Common people,“ svaraði hún. „That was my daughter who scored.“

Utah Royals 1 – Orlando Pride 0.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og samherjar í Utah Royals fagna fyrsta …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og samherjar í Utah Royals fagna fyrsta marki liðsins frá upphafi. Ljósmynd/Utah Royals

„Ég er mætt“

Utah Royals var stofnað í byrjun árs og taumarnir afhentir Lauru Harvey, einum virtasta knattspyrnuþjálfara kvennaliða vestanhafs. Þrátt fyrir stuttan feril hefur liðið nú þegar áunnið sér stóran aðdáendahóp í Salt Lake City, þar sem áhorfendaskarinn á Rio Tinto-leikvangnum telur að meðaltali tæplega 10 þúsund manns. Allra fyrsti leikur liðsins, gegn Orlando Pride, vannst ekki þrátt fyrir mark Gunnhildar Yrsu. Dómarinn dæmdi hendi innan vítateigs Utah Royals og úr varð jafntefli.

„Ég hefði alveg gefið þetta mark ef við hefðum bara unnið,“ segir Gunnhildur. Hún er tapsár með eindæmum, getur ekki einu sinni leyft 10 ára systur sinni að vinna í Yahtzee, og viðurkennir að það sé gaman að eiga fyrsta mark liðsins frá upphafi.

„Það er frábært að vera í sögubókunum,“ segir hún.

„Það er alveg frábær tilfinning og góð leið til að fá sjálfstraustið strax. Það segir: Ég er mætt!“

Gunnhildur, sem kölluð er Gunny þar vestra, er enn með blautt hárið eftir sturtu, nýkomin af æfingu – fyrst á grasinu og svo í lyftingasalnum. Það er rauðleitt mistur yfir borginni vegna skógarelda í nágrenninu og Gunnhildur klæðist stuttbuxum og hvítum hlýrabol. Gráðurnar 35 bjóða ekki upp á mikið meira, nema kannski dökk sólgleraugun.

Húðflúraður upphandleggurinn spennist þegar hún hallar sér fram á borðið og pantar sér íste á Honeysuckle-kaffihúsinu, þar sem Royals konur eru tíðir gestir. Það er erfitt að ímynda sér að undir töffaralegu yfirbragðinu búi snefill af sjálfsefa en engu að síður segist Gunnhildur oft mjög lítil í sér.

Gunnhildur á Rio Tinto vellum í Salt Lake City.
Gunnhildur á Rio Tinto vellum í Salt Lake City. mbl.is/Anna Marsý

„Ég set upp „front“ eins og ég sé með ágætis öryggi en mér finnst ég aldrei nógu góð...sem er örugglega ástæðan fyrir því að ég er hér í dag af því að ég er alltaf að reyna að vera eitthvað betra og meira,“ segir hún. Í umleitum sínum til uppbyggingar hefur hún leitað í lið sem þurfa á því sama að halda.

„Ég vil kannski ekkert alltaf fara í besta liðið en (...) ég er bara þannig leikmaður að ég vil fá mikla ábyrgð,“ útskýrir hún. „[Utah Royals] var að byrja með nýtt lið og ég vildi vera partur af því að byggja upp eitthvað stærra.“

Með boltann í blóðinu

Segja má að knattspyrnuferill Gunnhildar Yrsu sé kominn heilan hring með veru hennar í Bandaríkjunum en hún fór á sína fyrstu fótboltaæfingu árið 1996 í Connecticut, stuttu fyrir átta ára afmælisdaginn.

Fjölskyldan hafði flust búferlum þar sem Ýr var nýbyrjuð í sérnámi í barnalækningum. Gunnhildur, sem talaði enga ensku, átti nokkuð erfitt uppdráttar í fyrstu eða allt þar til nágranninn í næsta húsi bankaði upp á. Sá átti dóttur á sama aldri og þjálfaði knattspyrnulið í hverfinu.

„Ég hef alltaf verið feimin en orkumikil og hafði aldrei fundið leið til að losa þessa orku fyrr en ég fann fótbolta og íþróttir,“ segir Gunnhildur. „Þá fór ég að finna smá sjálfstraust og að geta talað.“

Ekki svo að skilja að hún hafi setið kyrr og spök fram að þessu. Heima á Íslandi hafði hún til að mynda prófað fimleika en á einu ljósmyndinni frá þeim tíma má glögglega þekkja fótboltastelpuna í hópnum og varð fljótt ljóst að ekki yrði úr því nein Ólympíuför.

Hlaupin, liðsheildin og fjörið í knattspyrnunni talaði hinsvegar til Gunnhildar og þegar heim var komið eftir fyrstu æfinguna hafði nágranninn það á orði að hún hefði boltann í sér.

Ýr brosti út í annað. Það sem granninn gat ekki vitað var að Gunnhildur er nefnd eftir einni allra frambærilegustu knattspyrnukonu Íslandssögunnar: Gunnhildi Sif Gylfadóttur.

Gælunafn Gunnhildar Sifjar, „The Gun
Gælunafn Gunnhildar Sifjar, „The Gun" átti vel við hana enda geiguðu skot hennar sjaldan.

Draumurinn sem brast

Það er mál manna að Gunnhildur Sif hafi verið einhverskonar ofurkona – hún skaraði fram úr í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún hlaut ítrekað verðlaun fyrir námsárangur sem læknanemi við Acadia-háskólann í Nova Scotia og var í ofanálag konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar skólans. Og svo var það fótboltinn.

Gunnhildur Sif, sem gekk undir nafninu Gunn Baldursson ytra og var iðulega kölluð The Gun, spilaði með skólaliðinu Acadia Axewomen og var markahæsti leikmaðurinn í Kanada öll þrjú árin sín. Hún leiddi lið sitt til sigurs á stórmótum og komst í úrvalslið, en stærsti áfanginn vannst þegar hún var valin í kvennalandslið Kanada sumarið 1987. Sama ár hafði kvennalandslið Íslands verið lagt niður, eftir aðeins sex ára tilveru, og árangur Gunnhildar var þess mikilvægari.

30. nóvember færi hún til Bresku Kólumbíu í úrtakshóp fyrir leik gegn Taívan og ef allt færi á réttan veg tæki hún þátt í fyrsta heimsmeistaramóti kvenna, í Kína, sumarið 1988.

Gunnhildur Sif gæti orðið fyrsti Íslendingurinn til að spila á HM.

Örlögin fóru á annan veg.

Hinn 27. nóvember 1987 fékk Gunnhildur Sif lánaðan gamlan skrjóð hjá vinkonu sinni í Wolfville og keyrði til Halifax þar sem hún þurfti að útvega sér pappíra tengda umsókn um kanadískan ríkisborgararétt. Eftir stutt stopp hjá foreldrum sínum í Darthmouth keyrði hún áleiðis heim, eftir þjóðvegi 101, í vonskuveðri og á slæmum dekkjum sem skautuðu á hálum veginum. Hún missti stjórn á bílnum, rétt í þann mund sem stór flutningabíll kom keyrandi á móti.

Gunnhildur Sif varð aðeins tvítug.

Gunnhildur Yrsa fer í alla slagi af mikilli hörku.
Gunnhildur Yrsa fer í alla slagi af mikilli hörku. Ljósmynd/Utah Royals

Svolítið magnað

Fáir atburðir hafa haft jafn mikil áhrif á Ýri. Þær Gunnhildur Sif voru systrabörn og afar samstiga en aðeins ár skildi þær að í aldri. Þegar Ýr eignaðist stúlku, tíu mánuðum eftir slysið, helltist yfir hana yfirþyrmandi löngun til að nefna hana eftir frænku þeirra mæðgna. Hún er ekki frá því að nafnið hafi kallað fram knattspyrnuhæfileikana en Gunnhildur Yrsa gerði sér litla grein fyrir tengslunum framan af.

„Ég var orðin aðeins eldri og byrjuð að spila aðeins meiri fótbolta,“ segir Gunnhildur.

„Enginn annar í fjölskyldunni spilar fótbolta og eiginlega enginn annar er í íþróttum. Þá byrjaði þetta að vera svolítið svona „Vá ókei“... Svolítið magnað myndi ég segja.“

Gunnhildur Yrsa lítur svo á að hún hafi spilað knattspyrnu í nafni frænku sinnar allt sitt líf en hún hefur tileinkað Gunnhildi Sif bæði sigurleiki og mörk. Þegar hennar 25. landsleik bar upp gegn Kanada fékk hún kanadíska fánann afhentan og lét alla leikmennina árita hann. Hún gaf móður Gunnhildar Sifjar fánann.

„Ég tengi við hana þó að ég hafi aldrei hitt hana eða neitt þannig. Amma mín og systir hennar eru mjög duglegar að segja mér sögur af því hversu yndisleg hún var og mér finnst ég þurfa að halda heiðri hennar á lofti. Mér finnst frábært að fá það verkefni,“ segir Gunnhildur Yrsa.

„Mér finnst hún eiga það skilið að ég heiðri hana.“

Gunnhildur segist ekki trúuð í hefðbundnum skilningi en lítur svo á að einhver stærri öfl en bara mannfólkið hljóti að hafa áhrif á heiminn; hlutirnir gerist ekki að ástæðulausu. Hún hefur oft þurft að halda fast í þá hugsun á sínum ferli, enda hefur hún slitið krossband þrisvar sinnum.

Lesa má greinina í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Gunnhildur mætir hverskonar áskorunum af miklu æðruleysi.
Gunnhildur mætir hverskonar áskorunum af miklu æðruleysi. mbl.is/Hari
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert