Parkinson-byrjunarlið Íslands

Parkinson-byrjunarlið Íslands er skipað ellefu konum á aldrinum 37 til …
Parkinson-byrjunarlið Íslands er skipað ellefu konum á aldrinum 37 til 76 ára sem eiga það sameiginlegt að glíma við sjúkdóminn. Ljósmynd/Aðsend

Vitundarvakning um Parkinson-sjúkdóminn heldur áfram í dag með samstarfi Parkinson- samtakanna og KSÍ þegar ellefu íslenskar konur sem allar glíma við sjúkdóminn munu ganga með íslenska landsliðinu inn á Laugardalsvöllinn fyrir stórleikinn á móti Þýskalandi. 

„Við viljum helst vekja athygli á fjölgun fólks með Parkinson hér á landi, aðallega vegna lengri lífaldurs, en flestir greinast eftir sextugt. Það vantar aðstöðu fyrir fólkið og því söfnum við fyrir Parkinson-setri,“ segir Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinson-samtakanna, í tilkynningu frá samtökunum.

Í Parkinson-byrjunarliðinu sem gengur með landsliðinu á völlinn eru ellefu konur á aldrinum 37 til 76 ára.

„Við erum ákaflega stolt af þessu flotta byrjunarliði okkar. Eins og sést á því þarf að leiðrétta þann misskilning að Parkinson sé öldrunarsjúkdómur, en því miður er fólk að greinast með Parkinson á öllum aldri og 1 af hverjum 10 er undir fimmtugu,“ er einnig haft eftir Vilborgu í tilkynningunni.

Í Parkinson-setrinu er ætlunin að bjóða upp á fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og dagvist með sérhæfðri endurhæfingu.

„Eins og staðan er í dag þá er þessi þjónusta ekki í boði fyrir fólk með Parkinson á Íslandi og það gengur ekki upp,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Hægt er að styrkja verkefnið með því að hringja í:

907-1501 fyrir 1.000 kr.
907-1503 fyrir 3.000 kr.
907-1505 fyrir 5.000 kr.
907-1510 fyrir 10.000 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert