Forsetinn bræddi hjarta dyravarðar

Davíð Blessing og Trausti Már Falkvard Traustason.
Davíð Blessing og Trausti Már Falkvard Traustason. mbl.is/Hari

„Við höfum fengið rosalega góð og jákvæð viðbrögð,“ segir Trausti Már Fal­kv­ard Trausta­son. Hann, Davíð Blessing og Jón Pétur Vágseið standa fyrir styrktartónleikum í kvöld fyrir dyravörðinn sem hlaut mænuskaða þegar ráðist var á hann fyrir utan skemmtistaðinn Shooters um síðustu helgi.

Tónleikarnir fara fram á skemmtistaðnum Paloma, hefjast klukkan 20.00 og kostar 1.500 krónur inn. Allur ágóði rennur til þolanda árásarinnar.

Fjórir menn voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins en einum var sleppt úr haldi á föstudag. Aðild hans að málinu er enn til rannsóknar en lögreglan leitar tveggja í tengslum við árásina.

Trausti segir að þeir félagar, sem allir starfa sem dyraverðir, hafi fundið fyrir miklum stuðningi, bæði frá skemmtistaðaeigendum og einnig almenningi. Þeir funda með fulltrúum úr borgarstjórn í næstu viku, þar sem öryggi dyravarða í miðborginni verður til umræðu.

Trausta, Davíð og Jóni var boðið á Bessastaði á fimmtudag þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við þá um ör­yggi í næt­ur­lífi Reykja­vík­ur. Fjallað var um leiðir til úrbóta, meðal annars með hliðsjón af stöðu mála í öðrum löndum.

Trausta Már Falkward, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Jón Pétur …
Trausta Már Falkward, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Jón Pétur Vágseið og Davið Blessing ræddu um öryggi dyravarða á fundi á Bessastöðum á fimmtudag. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands

Það var mjög skemmtilegt og mikill heiður að geta fengið að ræða við forsetann og að hann lýsi yfir stuðningi við okkur,“ segir Trausti en boðið kom þeim skemmtilega á óvart:

„Hann [forsetinn] er svo mikið maður fólksins og er inni í því sem er í gangi. Hann skrifaði persónulegt bréf til þolanda árásinnar. Það er eiginlega ekki hægt að segja hvaða þýðingu það hefur fyrir mann sem liggur inni á spítala. Þetta bræðir í manni hjartað.

Trausti segir að ástand félaga síns sem varð fyrir árásinni sé ekki gott en hann sé þó brattur, miðað við aðstæður. „Hann heldur í jákvæðnina og það vona allir það besta.

Eftirtaldir listamenn koma fram á tónleikunum á Paloma í kvöld:

Roland Hartwell, Ruddagaddur, Alexander Jarl, DJ Egill Spegill, Sbeen Around, Mike the jacket og OktavDj.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert