Farið fram á 16 ára fangelsi

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fer fram á að Valur Lýðsson verði …
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fer fram á að Valur Lýðsson verði dæmdur í 16 ára fangelsi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákæruvaldið fer fram á að Valur Lýðsson verði dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp, fyrir að hafa orðið Ragnari Lýðssyni bróður sínum að bana 31. mars síðastliðinn.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari sagði liggja fyrir að atlaga Vals að Ragnari hefði verið „mjög harkaleg“ og að mati ákæruvaldsins teldist sekt Vals fullsönnuð.

„Þetta er hrottafengin árás,“ sagði Kolbrún er hún flutti mál sitt fyrir Héraðsdómi Suðurlands eftir hádegi í dag. Hún sagði að ekki mætti líta framhjá því, að þrátt fyrir að Ragnar hefði ekki fengið stóran áverka á vinstri hlið höfuðs, sem síðan leiddi til þess að hann kastaði upp og kafnaði, hefði hann að öllum líkindum látist vegna þeirra áverka sem urðu á innri líffærum hans vegna rifbeina sem stungust m.a. í lifur hins látna.

Málsvörn ákærða hefur að nokkru snúist um að hann hafi ekki haft ásetning um að bana bróður sínum og að það ætti að meta til refsilækkunar.

Kolbrún sagði að Val hefði mátt vera það fullljóst að árás hans á Ragnar gæti endað með andláti þess síðarnefnda.

Um hefði verið að ræða langvarandi árás á mann sem var í þeirri stöðu að hann gat sér ekki björg veitt, á fjórum fótum og síðar liggjandi á gólfinu fyrir framan þvottavélina á heimili Vals á Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert