Vilja breiða út boðskapinn

mbl.is/Eggert

Linda Heiðarsdóttir, deildarstjóri og kennari í Laugalækjarskóla, segir þörf á að kennarar og skólastjórnendur fái þjálfun í að taka á viðkvæmum málum sem snerta nemendur. Viðkvæm álitamál geti verið af margvíslegu tagi og það sé ekki bara lífsleiknikennarinn sem eigi að sjá um að taka á málunum og ræða þau við nemendur, heldur geti erfiðar umræður komið upp alls staðar í skólakerfinu. Linda verður einn leiðbeinenda á námskeiði sem Laugalækjarskóli og Réttarholtsskóli standa fyrir næstkomandi laugardag þar sem verður meðal annars farið yfir það hvernig eigi að fjalla um viðkvæm álitamál með nemendum.

Ný handbók fyrir kennara

Í  maí 2017 tók Linda þátt í vinnubúðum um viðkvæm álitamál ásamt Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, kennara í Laugalækjarskóla, Bryndísi Haraldsdóttur, námsráðgjafa í Réttarholtsskóla, og Jóni Páli Haraldssyni, skólastjóra Laugalækjarskóla. „Vinnubúðirnar voru haldnar í Útey í Noregi fyrir kennara, skólastjóra og fulltrúa skólamálayfirvalda á Norðurlöndunum en menntamálaráðuneytið leitaði til þessara tveggja skóla til þátttöku. Það var verið að prufukeyra nýtt efni fyrir kennara til að þjálfa þá í því að ræða viðkvæm álitamál í skólastarfi,“ segir Linda. „Þetta er ekki nýtt kennsluefni fyrir börn heldur efni fyrir kennara. Okkur, sem tókum þátt í þessu, fannst þetta mjög gagnlegt og þess vegna viljum við fá sem flesta til að kynna sér þetta.“

Linda Heiðarsdóttir

Og nú ætla Linda, Guðrún Ebba, Bryndís og Jón Páll að kynna efnið fyrir íslenskum kollegum sínum. Námskeiðið sem verður haldið á laugardaginn ber yfirskriftina Viðkvæm álitamál og nemendur og á því verður farið yfir nýja handbók fyrir kennara sem byggist á efni frá Evrópuráðinu. Í handbókinni, sem Menntamálastofnun mun gefa út rafrænt, er tekið á erfiðleikum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál í skólum á borð við það hvernig eigi að tala um klám, kynþáttafordóma og hryðjuverk við börn og unglinga.

Myndi passa sem þjálfunarefni inn í kennaranámið

Linda segir mikla þörf á að kennarar og skólastjórnendur fái þjálfun í að taka á viðkvæmum málum sem snerta nemendur. „Ég sæi fyrir mér að þetta efni myndi passa inn í kennaranámið sem þjálfunarefni. Ég lauk kennaranámi úr gamla Kennó á sínum tíma og man ekki sérstaklega eftir áherslu á þetta. Alls konar spurningar og umræður geta orðið að miklu hitamáli í skólastofunni og það væri æskilegt að allir kennarar, hvort sem þeir kenna hönnun og smíði, dönsku eða lífsleikni, geti gripið boltann á lofti og tekið umræðuna.“ Linda segir að það hafi einmitt verið upplifunin af námskeiðinu í Útey; þátttakendur hafi orðið að taka umræðu um hluti sem þeir vissu jafnvel ekkert um.

Hún bætir við að viðkvæm álitamál geti verið af margvíslegu tagi og nefnir sem dæmi farsímanotkun í skólum. Þá sé það ekki bara lífsleiknikennarinn sem eigi að sjá um að taka á málunum og ræða þau við nemendur, heldur geti erfiðar umræður komið upp alls staðar í skólakerfinu. Hvort sem það er á frístundaheimili, með skólaliðum eða í list- og verkgreinum.

Heyrist þér á kennurum að það sé þörf á efni sem þessu?

„Já, ég heyri það alls staðar. Við höfum verið að kynna þetta fyrir skólastjórnendum og kennarahópum og viðbrögð fólks eru alltaf þau að þetta sé eitthvað sem þurfi að fara í gegnum. Og upplifunin er að þetta sé ekki enn eitt verkefnið sem kennarar og skólastjórnendur þurfi að sinna, heldur sé þetta góð hagnýt viðbót sem nýtist strax.“

Sem fyrr segir verður námskeiðið haldið næstkomandi laugardag. „Enn eru örfá sæti laus og fólki er velkomið að hafa samband við Réttarholtsskóla eða Laugalækjarskóla ef það hefur einhverjar spurningar,“ segir Linda. Maður fer á mjög mörg námskeið almennt í þessu starfi og það er alltaf eitthvað sem maður getur tekið með sér. En okkur fannst eftirfylgnin svo góð á þessu námskeiði. Þetta er líka mjög þarft og það er von okkar, sem stöndum að þessu á laugardaginn, að við náum að breiða út boðskapinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert