Hlaupararnir mjög skilningsríkir

Verðlaunahafar í hálfmaraþoni kvenna í Reykjavíkurmaraþoninu.
Verðlaunahafar í hálfmaraþoni kvenna í Reykjavíkurmaraþoninu. mbl.is/Valli

Upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur segir að keppendurnir sem unnu til verðlauna í Reykjavíkurmaraþoninu hafi verið mjög skilningsríkir þegar haft var samband við þá í gær vegna mistakanna sem urðu í framkvæmd hlaupsins.

Vegna mistaka voru tím­ar þeirra hlaup­ara sem kepptu í heilu og hálfu maraþoni í ­m­araþon­inu í síðasta mánuði ógild­ir. Úrslit­in í grein­un­um munu þó standa og keppendurnir halda sínum verðlaunum.

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í síðasta mánuði.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í síðasta mánuði. mbl.is/Valli

Ekki náðist í alla í síma

Reynt var að hringja í alla verðlaunahafana í heilu og hálfu maraþoni bæði í kvenna- og karlaflokki. Níu útlendingar voru í þessum tólf sætum, þ.e. fyrsta til þriðja sætinu. Hringt var í þrjá efstu Íslendingana í sömu vegalengdum.

Að sögn Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsinga- og samskiptastjóra ÍBR, náðist ekki í alla erlendu þátttakendurna í gegnum síma en allir nema einn af Íslendingunum svöruðu. Allir keppendurnir fengu tölvupóst með tíðindunum. 

„Við erum mjög þakklát fyrir þann skilning sem þau sýndu okkur,“ segir hún. „Þeim fannst þetta auðvitað leiðinlegt eins og okkur finnst að sjálfsögðu en þeir tóku þessu mjög vel. Skaðinn er skeður. Það er lítið hægt að gera núna nema fara vel í gegnum þetta allt og við pössum að þetta komi ekki fyrir aftur.“

Aðspurð segir Anna Lilja að mjög stór hluti erlendra þátttakenda keppi alla jafna í heilu og hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu. Í ár fengu 3.800 manns tíma í báðum hlaupunum og voru erlendir hlauparar að minnsta kosti helmingur af þeim.

Endamarkið í 10 kílómetra hlaupi til vinstri og í maraþoni …
Endamarkið í 10 kílómetra hlaupi til vinstri og í maraþoni og hálfmaraþoni til hægri. mbl.is/Valli

Undanþága vegna Boston-maraþons ólíkleg

Þeir sem ætluðu að nýta tímann sinn úr maraþoninu til að komast í Boston-maraþonið eru í vanda staddir því ólíklegt er að þeim verði veitt undanþága, að sögn Önnu Lilju.

ÍBR sendi skipuleggjendum Boston-maraþonsins póst og óskaði eftir undanþágu. Ekki hefur formlegt svar fengist þaðan en allar líkur eru á að tímarnir verði ekki teknir gildir.

Ekki hefur verið haft samband við forsvarsmenn annarra hlaupa en Boston-maraþonsins enda er það eina hlaupið sem biður sérstaklega um að fá úrslitin. Önnur erlend hlaup skoða sjálf upplýsingarnar á vefsíðu Reykjavíkurmaraþonsins.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lýkur við hálfmaraþonið.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lýkur við hálfmaraþonið. mbl.is/Valli

Of stórt svæði fyrir eftirlitsmenn að dekka

Ákveðið hefur verið að fjölga eftirlitsmönnum vegna hlaupsins á næsta ári en ekki er ljóst hversu margir þeir verða. Í ár voru þeir tíu en höfðu verið níu fram að því. 

„Þetta er svolítið stórt svæði sem þeir þurfa að dekka og við þurfum greinilega að minnka það,“ segir Anna Lilja og bendir á að mikið sé lagt upp úr því að trufla umferð og íbúa í borginni sem minnst meðan á hlaupinu stendur.

Hún segir að það hafi gert skipulagninguna erfiða hversu miklar framkvæmdir eru í borginni. „Það voru mjög margir erfiðir staðir í ár, fleiri en vanalega, og það fór svolítil orka í þá.“

Einn af keppendunum í 10 kílómetra hlaupi.
Einn af keppendunum í 10 kílómetra hlaupi. mbl.is/Valli

Best að hlaupa inn í Langholtshverfið

Arnar Pétursson, sem kom fyrstur Íslendinga í mark, benti á að hugsanlega þyrfti að endurskoða snúningspunktinn í hlaupinu og bætti við að erfiðara væri að gera mistök þegar hlaupið er í hring heldur en að þurfa að snúa við eins og raunin hefur verið.

Anna Lilja er sammála því að hlaupaleiðin væri skemmtilegri ef hægt væri að hlaupa í hring og nefnir að best væri ef hægt væri að hlaupa inn í Langholtshverfið og fara inn íbúðargötur þar. Ekkert hafi þó verið ákveðið í þeim efnum.

Þátttökugjöldin ekki endurgreidd

Aðspurð segir hún að þátttökugjöldin vegna hlaupsins verði ekki endurgreidd. „Þátttökugjöld eru aldrei endurgreidd hjá okkur. Það kemur mjög skýrt fram í skilmálum.“

Hún kveðst hafa heyrt af umræðu um mögulega endurgreiðslu á Facebook en nefnir að um mannleg mistök hafi verið að ræða og að endurgreiðsla komi ekki til greina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert