Kaupa 30% hlut í Advania

Stórir fjárfestingasjóðir hafa nú keypt sig inn í Advania.
Stórir fjárfestingasjóðir hafa nú keypt sig inn í Advania. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stærsti lífeyrissjóður Danmerkur hefur í samvinnu við fjárfestingarsjóð sem rekinn er af norðurevrópska sjóðastýringafyrirtækinu VIA equity, keypt 30% hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Advania.

Trúnaður ríkir um kaupverð hlutarins. Tilkynnt verður um kaupin í dag samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Advania er í eigu finnska fjárfestingasjóðsins Nordic Mezzanine, sænskra fjárfesta og lykilstjórnenda félagsins. Það rekur starfsstöðvar hér á landi, í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Höfuðstöðvar félagsins eru í síðastnefnda landinu. Advania var áður í meirihlutaeigu Framtakssjóðs Íslands sem seldi fyrirtækið í tveimur skrefum á árunum 2014 og 2015 til Advinvest, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi viðskipti í Morgunblaðinu í dag.

Stjórn Advania AB frá vinstri: Vesa Suurmunne, Katrín Olga Jóhannesdóttir, …
Stjórn Advania AB frá vinstri: Vesa Suurmunne, Katrín Olga Jóhannesdóttir, Birgitta Stymne Göransson, Thomas Ivarson og Bengt Engström. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar hafa þó enn ríka aðkomu að félaginu. Forstjóri móðurfélagsins, Advania AB er Gestur B. Gestsson. Forstjóri Advania á Íslandi er hins vegar Ægir Már Þórisson. Fleiri lykilstjórnendur fyrirtækisins eru Íslendingar. Má þar m.a. nefna Lilju Brynju Skúladóttur sem situr í framkvæmdastjórn félagsins og Evu Sóleyju Guðbjörnsdóttur sem er fjármálastjóri Advania á Íslandi. Þá situr Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, í stjórninni. Advania byggist á grunni margra gamalgróinna íslenskra fyrirtækja. Má þar m.a. nefna Einar J. Skúlason, sem stofnað var 1939, SKÝRR sem stofnað var 1953, Teymi hf., Kögun, Landsteina Strengi, Eskil og HugAX.

Uppfært kl. 8.51:

Advania staðfestir í fréttatilkynningu að VIA equity og PFA, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, hafi bæst í eigendahóp Advania AB með kaupum á 30% hlut í félaginu.

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania:

„Starfsfólkið er verðmætasta auðlind Advania og það sem gerir okkur samkeppnishæf. Við höfum verið svo lánsöm að laða að okkur margt hæfileikaríkasta fólkið í geiranum sem sameinast í að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini okkar. Sú stefna og dugnaður er forsenda fyrir velgengni okkar. Við hlökkum til að vinna með nýjum hluthöfum sem deila þessari sýn og koma með sérfræðiþekkingu sem mun efla okkur á komandi árum. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Gestur í tilkynningunni.

Benjamin Kramarz, meðeigandi VIA equity:

„Mikil eftirspurn eftir þjónustu í upplýsingatækni heldur áfram að aukast á komandi árum. Heimurinn er að breytast, tæknin þróast hraðar en nokkru sinni fyrr og þörfin fyrir snjallar og notendavænar tæknilausnir er augljós. Advania hefur einstaka nálgun á upplýsingatækni-markaðinum, og uppfyllir þarfir viðskiptavinarins óháð framleiðendum og lausnum. Sú nálgun hefur sýnt sig að bera árangur og vakti athygli okkar. Við sjáum sóknarfæri í Advania þar sem fyrirtækjamenningin stuðlar að frekari vexti. Kaup í félaginu ríma því við fjárfestingastefnu okkar og Advania smellpassar inn í eignasafnið. Þess vegna áttum við frumkvæði að viðræðum við eigendur Advania og erum hæstánægð með árangurinn.”

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert