Steinarnir boðuðu ógæfu

Erlendur ferðamaður skilaði aftur steinum sem hann hafði tínt á …
Erlendur ferðamaður skilaði aftur steinum sem hann hafði tínt á Íslandi.

„Einhver sagði að það boðaði ógæfu að tína steina og taka þá með heim. Eftir þó nokkur óhöpp trúi ég því að það sé satt!“ Þannig hljóða lokaorð bréfsins sem Soffía Þorsteinsdóttir fékk óvænt gegnum lúguna í gær. Með bréfinu fylgdu steinar í öskju.

Erlendur ferðamaður, sem hafði tekið steinana með sér úr landi, trúir að þeir hafi fært honum ógæfu og skilaði þeim aftur til landsins.

Í bréfinu segir:

„Sæl, ég heimsótti heimaland þitt fyrr á árinu og borðaði kvöldverð heima hjá þér. Þetta var indælt kvöld og við töluðum um álfa- og huldutrú.

Í ferðinni tíndi ég saman steina og minjagripi. Einhver nefndi það við mig að það boðaði ógæfu að tína steina og taka þá með sér heim. Eftir þó nokkur óhöpp trúi ég að það sé satt!

Viltu vera svo væn að setja þessa steina á einhvern stað þar sem þeir geta orðið hamingjusamir á ný.

Bréfið er frá erlendum ferðamanni sem fór í mat hjá Soffíu en Soffía er með aðstöðu þar sem hún býður ferðamönnum upp á heimilismat. Konan sem sendi bréfið virðist hafa lent í ógöngum og gripið til þess ráðs að losa sig við steinana, í von um að óhöppunum linnti.

Soffía veit ekki til hvaða óhappa konan vísar en hún ætlar þó að skila steinunum út í náttúruna svo að enginn hljóti frekari skaða af.

„Ég man eftir henni, þær voru tvær saman og komu til mín í mat. Við töluðum um álfa og huldufólk en ekkert um að steinar færðu ógæfu, því trúi ég allavega ekki,“ segir Soffía.

„Við ætlum að finna góðan stað og skila steinunum í náttúruna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert