Getum lært af frændum okkar

Páll telur að ráðstefnan geti verið gott nesti inn í …
Páll telur að ráðstefnan geti verið gott nesti inn í veturinn. mbl/Arnþór Birkisson

„Við lítum svo á að þetta sé góð byrjun á vetri sem við berum miklar væntingar til,“ segir Páll Ólafsson, sviðsstjóri Barnaverndarstofu. Norræn ráðstefna um velferð barna og forráðstefna vegna 20 ára afmælis Barnahúss fer fram í Hörpu. Ráðstefnan hefst í dag og stendur fram á föstudag.

Yfir 400 sérfræðingar frá Norðurlöndum og víðar eru skráðir á ráðstefnuna um velferð barna og á þriðja hundrað á afmælisráðstefnu um Barnahús.

Marta Santos Pais, sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna varðandi ofbeldi gegn börnum og einn af sérfræðingunum á bak við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, er ein þeirra sem flytja framsögur á ráðstefnunni vegna 20 ára afmælis Barnahúss.

Er kerfið að bregðast rétt við?

„Fókusinn er þessi: Erum við að vinna barnvænt? Erum við að vinna út frá réttindum barna? Er kerfið að bregðast við eins og það á að bregðast við þegar fjölskyldur og börn þurfa á aðstoð að halda?“ segir Páll.

Hann segir að fulltrúar íslenskra barnaverndarmála muni vonandi geta lært af erlendum sérfræðingum sem koma fram á ráðstefnunni og notað visku þeirra sem nesti inni í komandi vetur.

Mjög ánægður með störf ráðherra

Við erum með ráðherra velferðarmála, Ásmund Einar Daðason, sem er ráðherra sem setur barnavernd og málefni barna á oddinn. Við erum ótrúlega stolt af því og höfum ekki upplifað það svona sterkt áður,“ segir Páll og heldur áfram:

„Hann er búinn að setja af stað marga vinnuhópa og mörg verkefni og vill gera breytingar. Þetta er góð byrjun til þess; fara á ráðstefnuna, hlusta á sérfræðingana og læra af einhverjum þeirra.

Hann segir að vissulega sé eitthvað sem íslensk barnavernd geti gert betur og segir frændur okkar framar í mörgu. „Þeir eru framar í umræðunni um réttindi barna og að nota barnasáttmálann í barnaverndarstarfi. Einnig eru þeir framar í því að bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna í barnavernd,“ segir Páll og bætir við að mikill munur sé á fjölda mála hjá starfsmönnum barnaverndar á Íslandi og í Noregi.

Meira álag á starfsfólki hér á landi

„Þar er talað um 12 til 20 mál barna á hvern starfsmann en hér eru þau að meðaltali 45. Þá getur maður spurt sig hvort það hafi áhrif á vinnuna þótt allir geri sitt besta.“

Forráðstefnan hefst klukkan níu en Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, setur ráðstefnuna um velferð barna klukkan 16.00. Dagskrána má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert