Þinghald í máli Thomasar á þriðjudag

Thomas áfrýjaði 19 ára dómi sem hann fékk fyrir morðið …
Thomas áfrýjaði 19 ára dómi sem hann fékk fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningsþinghald í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Möller Olsen, sem dæmdur var í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, mun fara fram í Landsrétti 11. september næstkomandi, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í september á síðasta ári, en Thomas áfrýjaði honum.

Í frétt RÚV segir að verjandi, sækjandi og réttargæslumaður muni mæta í undirbúningsþinghaldið, ásamt dómurum. Þar verði metið hvort þörf sé á viðbótarsönnunarfærslu vegna málsins eða hvort einungis fari fram málflutningur. Bæði sækjandi og verjandi hafa óskað efir því að leggja fram viðbótarsönnunargögn.

Frá því dómur var kveðinn upp hafa þær nýju upplýsingar komið fram að líkami Birnu Brjánsdóttur var settur í Ölfusá, við Óseyrarbrú, þaðan sem hann rak á einni viku upp í fjöru skammt vestan við Selvogsvita, þar sem hann fannst eftir mikla leit hinn 20. janúar árið 2017. Er það niðurstaða haffræðings, sem var dómkvaddur matsmaður og fenginn að beiðni fyrrverandi verjanda Thomasar.

Þá kom í ljós í nýrri skoðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að óútskýrður akstur Thomasar á bílaleigubíl sem hann hafði á leigu að morgni þess dags sem Birna hvarf var meiri en áður var talið. Aksturinn var 190 kílómetrar en ekki 140, eins og kom fram við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi.

mbl.is