Baða sig í auðlindinni

Vinsælasti ferðamannastaður landsins, fyrir utan höfuðborgina, er tilbúið lón í …
Vinsælasti ferðamannastaður landsins, fyrir utan höfuðborgina, er tilbúið lón í Svartsengi, Bláa Lónið. Aðsóknin er slík að stýra þarf móttökugesta og fólk þarf að panta fyrirfram til að komast að. Ferðamannastaðurinn hefur fengið fjölda viðurkenningu fyrir upplifun gesta og sérstöð mbl.is/Ófeigur

„Heita vatnið er hluti af sérstöðu Íslands og mikilvægt að nýta hana. Margir af gestum landsins hafa áhuga á að baða sig í ómeðhöndluðu vatni og komast þannig í beint samband við náttúruauðlindina,“ segir Anna G. Sverrisdóttir, sjálfstæður ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Fjórir baðstaðir hafa verið byggðir upp í kjölfar Bláa lónsins á Reykjanesi og nokkrir til viðbótar eru í undirbúningi.

Bláa lónið ruddi brautina og hefur mikla sérstöðu vegna efnainnihalds vatnsins úr borholum í Svartsengi. Lækningamáttur þess er þekktur. Bláa lónið er fjölsóttasti einstaki ferðamannastaður landsins og er helsta ástæðan fyrir þeirri ímynd sem Ísland hefur fengið sem land náttúrubaðanna.

Dreifðir um landið

Jarðböðin við Mývatn voru opnuð árið 2004 og grundvallast á náttúruauðlindum þess svæðis og nálægð við náttúruperluna Mývatn. Baðstaðurinn Laugarvatn Fontana opnaði dyr sínar fyrir gestum á árinu 2011. Sérstaða hans er nýting á hver niðri við vatnið, en hveravatnið hefur verið notað til baða og heilsubótar í aldir. Áform eru uppi um að stækka böðin.

Tveir nýjustu baðstaðirnir eru Krauma í Borgarfirði og Sjóböðin (GeoSea) við Húsavík. Krauma nýtir vatn úr Deildartunguhver, sem er vatnsmesti hver Evrópu. Vatnið í Sjóböðunum er eins og nafnið bendir til sjór sem sóttur er með djúpum borholum. Fjárfestar eru með í undirbúningi að reisa hótel í tengslum við Sjóböðin.

Mikilvægir vinnustaðir

Allir þessir staðir veita margvíslega aðra þjónustu, þótt böðin séu meginaðdráttaraflið. Þar eru veitingar og minjagripasala og lúxushótel er risið við Bláa lónið og þar er fyrir margvísleg önnur þjónusta og framleiðsla sem byggist á auðlindum lónsins.

Allir baðstaðirnir eru mikilvægir vinnustaðir í sínu umhverfi. Sem dæmi má nefna að í sumar unnu 40 starfsmenn hjá Jarðböðunum, sem eru stærsti einkarekni vinnuveitandinn í Mývatnssveit. Fyrirtækið hefur byggt sjö íbúðir fyrir starfsfólkið í Reykjahlíð og rauf með því áratuga kyrrstöðu í byggingu íbúðarhúsnæðis í hverfinu. „Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir svæðið. Jarðböðin eru afþreying fyrir ferðafólk sem stuðlar að því að gestir dvelja lengur á svæðinu og kaupa sér gistingu og nýta aðra þjónustu. Þannig tengjast ýmsar greinar ferðaþjónustunnar,“ segir Steingrímur Birgisson, formaður stjórnar Jarðbaðanna.

Ylströnd og Fjallaböð

Fjöldi annarra baðstaða er á hugmyndastigi og nokkrir eru komnir talsvert á veg í undirbúningi. Verkefni sem nefnt var Ylströndin við Urriðavatn en heita mun Vök Baths er í undirbúningi. Urriðavatn er á Fljótsdalshéraði, skammt frá Egilsstöðum. Undan vatninu kemur heitt vatn sem er drykkjarhæft og verður notað með ýmsum hætti.

Hluti af upplifuninni í nýju Sjóböðunum við Húsavík er að …
Hluti af upplifuninni í nýju Sjóböðunum við Húsavík er að fylgjastmeð sólarlaginu. Böðin eru opin og tilfinningin er eins og að vera úti á sjó. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Fjallaböðin í Þjórsárdal eru annar baðstaður sem mikil alvara er í. Grundvallast baðstaðurinn á heitu vatni sem vellur upp úr jörðinni en notað var í sundlaug sem byggð var fyrir starfsmenn við byggingu Búrfellsvirkjunar um 1970. Þar er einnig ætlunin að koma upp hóteli.

Þriðja verkefnið sem vert er að nefna er hugmynd um baðstað og hótel á landi Skíðaskálans í Hveradölum við rætur Hellisheiðar. Svæðið er í skipulagsferli sem hefur tekið alllangan tíma. Fjöldi annarra verkefna er á hugmyndastigi og ekki gott að segja hvað úr verður. Nefna má sem dæmi Hveragerði, Flúðir og Hoffell í Hornafirði.

Þá vaknar spurningin hvort offjárfesting sé í þessari afþreyingu, hvort núverandi og væntanlegir baðstaðir séu að taka hver frá öðrum. Anna G. Sverrisdóttir, sem vann lengi sem framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu og rak síðar Laugarvatn Fontana, telur að það þurfi ekki að vera, þótt vitaskuld megi ekki ofmetta neina tegund afþreyingar. „Ég held að enn séu tækifæri í þessu, það er að segja ef hver og einn byggir á sinni sértöðu en apar ekki beint eftir öðrum. Það er enn rými, erlendir og innlendir ferðamenn sækja í þetta. Þá er gott að uppbyggingin dreifist um landið eins og hún hefur gert. Þótt dregið hafi úr fjölgun ferðafólks sé ég ekki annað en hún muni halda áfram,“ segir Anna og leggur áherslu á að gæði baðstaðanna þurfi áfram að vera mikil.

Hún telur að tækifæri séu við Breiðafjörð og á Vestfjörðum til uppbyggingar baðstaða, en víða á þessu svæði eru náttúrulaugar sem töluvert eru sóttar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert