Guðlaugur hitti kínverska ráðamenn

Guðlaugur Þór og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Guðlaugur Þór og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Fjögurra daga heimsókn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra til Kína hófst í morgun á fundi hans með Wang Qisan, varaforseta Kína, og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Helstu umræðuefni á fundunum tveimur voru aukin viðskipti Íslands og Kína, jarðhitasamstarf, loftslagsmál, norðurslóðamál og mannréttindi. Frá þessu er greint á vef utanríkisráðuneytisins.

Fjögur ár eru síðan fríverslunarsamningur Íslands og Kína gekk í gildi, en að sögn Guðlaugs er Kína orðið eitt helsta efnahagsveldi heims og áhrif landsins í alþjóðakerfinu orðin afar mikil. Hann segir mikilvægt að fá tækifæri til þess að ræða beint við tvo af æðstu ráðamönnum ríkisins um sameiginlega hagsmuni. „Þar ber [sic] viðskipti einna hæst enda hafa þau vaxið jafnt og þétt með tilkomu fríverslunarsamningsins. Við vorum sammála um að enn væru ónýtt tækifæri á því sviði,“ sagði Guðlaugur Þór að loknum fundunum.

Meðal þess sem ráðherrarnir ræddu var hvernig nýta mætti fríverslunarsamning ríkjanna betur, loftferðamál og ferðaþjónusta. Stjórnvöld beggja ríkja hafa áhuga á að koma á beinu áætlunarflugi á milli Íslands og Kína.

Þá voru loftslagsmál ofarlega á baugi á báðum fundum, og aukið samstarf á sviði jarðvarma í tengslum við þau, en Íslendingar og Kínverjar hafa átt farsælt samstarf á því sviði í rúman áratug. Þá greindi Guðlaugur Þór frá fyrirhugaðri formennsku Íslands í norðurskautsráðinu en Kína er áheyrnaraðili að ráðinu. 

Guðlaugur Þór tók einnig upp mannréttindamál. „Mannréttindi eru lykilþáttur í utanríkisstefnu Íslands og við eigum að láta einskis ófreistað til að setja þau mál á dagskrá, ekki síst nú þegar Ísland hefur tekið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ég kom afstöðu okkar á framfæri og við áttum uppbyggilegt samtal um þessi mál.“

Á morgun mun Guðlaugur Þór hitta kínverska embættismenn og á laugardag heimsækir hann borgina Xiongan í Hebei-héraði. Þar hafa Arctic Green Energy og kínverska orkufyrirtækið Sinopec rekið sameiginlega hitaveitu um árabil og er hún orðin ein stærsta jarðhitaveita heims. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert