Landsréttur staðfestir nálgunarbann

Maðurinn liggur undir grun um að hafa beitt konuna ofbeldi …
Maðurinn liggur undir grun um að hafa beitt konuna ofbeldi og hótað ólögráða dóttur þeirra. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni og ólögráða dóttur fram til 27. október næstkomandi. Svæðið afmarkast við 50 metra radíus frá miðju heimilis þeirra. Þá er einnig lagt bann við því að hann nálgist mæðgurnar með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglu vegna málsins segir að lögreglu hafi borist tilkynning um heimilisofbeldi í ágúst síðastliðnum. Þá hafi vinkona konunnar haft samband við lögreglu því maðurinn hafði læst hana inni í herbergi og hún óttaðist um hana.

Maðurinn hafði verið heima með dóttur þeirra en hringdi í eiginkonu sína og sagðist ekki nenna að vera með barnið lengur því hann þyrfti að hjálpa vini sínum að gera við bíl. Þegar konan vildi ekki koma heim strax hótaði hann því að skaða barnið og gera andlit hennar þannig að hún gæti aldrei farið út aftur. Þegar hún kom heim henti hann henni á rúmið í svefnherberginu, læsti herberginu og tók hana kyrkingartaki með báðum höndum þangað til hún átti erfitt með að anda. Greinilegir áverkar voru á hálsi hennar.

Hjónin höfðu ekki búið saman á Íslandi fyrr en nokkrum dögum áður en hann réðst á hana. Hún sagðist hafa ætlað að láta á það reyna að búa með honum en það hafi endað svona. Aðspurð hvort maðurinn hefði lagt hendur á hana áður svaraði hún játandi.

Lögreglustjóri sagði ljóst að maðurinn lægi undir sterkum grun um að hafa beitt konuna ofbeldi og hótað ólögráða dóttur þeirra. Talin væri hætta á því að hann myndi gera það aftur og að friðhelgi þeirra mæðgna yrði ekki vernduð með vægari hætti en nálgunarbanni eins og sakir stæðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert