Öruggara að keyra eins og kona

Konur eru fyrr á ferðinni að skipta um dekk en …
Konur eru fyrr á ferðinni að skipta um dekk en karlar. Þær eru líka öruggari bílstjórar, skv. nýrri herferð. 1. nóvember er nagladekkjadagurinn. Þeir sem eru á heilsársdekkjum eru því rólegir um sinn. Eyþór Árnason

„Keyrðu eins og kona“ segir í nýrri herferð Sólningar hf. dekkjaverkstæðis. Karlar valda miklu fleiri slysum en konur og því beinir fyrirtækið þessum áríðandi tilmælum til karlpeningsins; að keyra meira eins og konur.

Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hendir gaman að þessu. „Þetta eru náttúrlega bara staðreyndir frá Samgöngustofu. Ef karlar keyrðu meira eins og konur ættu að verða minni slys,“ segir hann hýr í bragði í samtali við mbl.is.

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu, að sögn Gunnars, eru karlar um 70-90% þeirra sem gerast brotlegir eða valda alvarlegum slysum í umferðinni. Konur eru því í miklum minnihluta þeirra sem valda bílslysum.

Munur á körlum og konum

Munurinn á aksturshæfni þessara tveggja kynja, karla og kvenna, er útskýrður í auglýsingunni með því að „karlmenn eiga það til að ofmeta eigin hæfileika til aksturs og taka meiri áhættu en konur í umferðinni“.

Samkvæmt þessu er því best, til að tryggja öryggi í umferðinni, að láta mömmu keyra, konuna, systur, frænku eða ömmu. Ef ekki það, þá gilda myllumerki og nafn herferðarinnar: „Keyrðu eins og kona!“

Að keyra eins og kona hefur í áranna rás ekki verið notað í uppbyggilegum skilningi. Gunnari finnst auglýsingin vera skemmtileg og ný nálgun á gamla fordóma og karlrembu. „Þetta hljómar kannski karlrembulega í fyrstu en er auðvitað andstæðan við það,“ segir Gunnar. 

Hann hefur ekki áhyggjur af viðbrögðum fólks við auglýsingunni. „Þetta er hópurinn sem má sparka í,“ segir hann hlæjandi, og í yfirfærðri merkingu, ef það er ekki ljóst. „Okkur finnst bara betra að selja konum dekk. Við erum að selja umferðaröryggi, dekk, og konur eru bara miklu áhugasamari um það. Þetta er alltaf eins: Á haustin koma konurnar fyrst að kaupa vetrardekk, og eldra fólk, og svo þegar líður á törnina tínast karlarnir inn.“

Hér er myndbandið: 

mbl.is

Bloggað um fréttina