Samningurinn gerður í góðri trú

Allir liðsmenn íslenska kokkalandsliðsins sögðu sig úr liðinu í gær.
Allir liðsmenn íslenska kokkalandsliðsins sögðu sig úr liðinu í gær. Ljósmynd/ Hörður Ásbjörnsson

Forseti Klúbbs matreiðslumeistara segir þá stöðu sem upp er komin mjög viðkvæma og svigrúm þurfi til að vinna úr henni. Fregnir bárust af því í gær að klúbburinn hefði gert styrktarsamning við fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hf. Í kjölfarið sögðu allir liðsmenn kokkalandsliðsins sig úr liðinu.

„Þetta eru váleg tíðindi og það er enn verið að vinna úr stöðunni. Klúbbur matreiðslumeistara er ópólitískur félagsskapur sem á og rekur kokkalandsliðið. Við tökum ekki afstöðu með eða á móti sjókvíaeldi, en klúbburinn og landsliðið eru nú orðin skotspónn tveggja ólíkra hagsmunaaðila, sem er miður,“ segir Björn Bragi Bragason.

Afstaða ekki tekin með samningnum

Hann segir Klúbb matreiðslumeistara ekki taka afstöðu með eða á móti sjókvíaeldi frekar en öðrum atvinnugreinum eða pólitískum ákvörðunum sem teknar eru í landinu. Aðspurður hvort afstaða hafi ekki verið tekin með undirritun styrktarsamnings segir Björn Bragi svo ekki vera.

„Arnarlax er fyrirtæki sem hefur íslenska kennitölu og starfsleyfi á Íslandi. Við það var gerður styrktarsamningur, eins og við gerum við önnur fyrirtæki í atvinnulífinu, í góðri trú. Staðan sem er komin upp er mjög viðkvæm og við þurfum smásvigrúm til þess að vinna úr henni.“

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar mbl.is leitaði til hans eftir viðbrögðum við fregnum af afsögn kokkalandsliðsmanna vegna samningsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert